Tónlist

Frum­sýning á Vísi: „Fram í rauðan dauðann“

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
JóiPé frumsýnir stiklu úr stuttmynd hér á Vísi.
JóiPé frumsýnir stiklu úr stuttmynd hér á Vísi. Aðsend

Lífið á Vísi kynnir frumsýningu á myndbandi við lagið Fram í rauðan dauðann eftir tónlistarmanninn JóaPé. Lagið er að finna á samnefndri plötu en myndbandið er einnig hluti af stuttmynd sem JóiPé frumsýnir í kvöld.

Hér má sjá myndbandið:

Klippa: JóiPé - Fram í rauðan dauðann

„Þann 21. október 2022 gaf JóiPé út plötuna Fram í rauðan dauðann. Platan er fyrsta heildstæða verk hans sem sóló artisti en JóiPé er þekktur sem annar helmingur tvíeykisins JóiPé x Króli. Til að fagna árs afmæli plötunnar verður blásið til útgáfuhófs í Bíó Paradís í kvöld. Þar verður frumsýnd stuttmynd tileinkuð plötunni þar sem platan er flutt ásamt stórvalaliði tónlistarmanna,“ segir í fréttatilkynningu. 

Blaðamaður ræddi við JóaPé sem segist ánægður með verkefnið. 

„Mig langaði til að heiðra plötuna mína. Ég er mjög stoltur af þessari plötu og hefði viljað fylgt henni betur eftir svo mér datt í hug að smala saman hljómsveitinni og taka upp svokallað Live session. Hugmyndin var sú að flytja plötuna í alveg hvítum sal sem líkist hvítu tómarúmi. Skemmtilegur kontrast myndaðist fyrir vikið.

Hljómsveitin var öll svartklædd og pönkuð inn í þessu hvíta og fallega rými. 

Á milli allra laga er svarthvítur myndbandsbútur sem býr yfir ákveðinni nostalgíu. Ég notast við gamlar VHS ​spólur sem og gömul tónlistarmyndbönd frá mér og Króla, það bjó til skemmtilegan rauðan þráð í gegnum stuttmyndina.“

Hljómsveitin í svörtu á hvítu.Aðsend

Meðal þeirra sem komu að verkefninu voru Magnús Jóhann Ragnarsson á hljómborð, Bergur Einar Dagbjartsson á trommur og Hafsteinn Þráinsson á gítar og bassa. Gestasöngvarar voru þau Rakel Sigurðardóttir (RAKEL), Daniil, Steindór Gestur Guðmundarson Waage (Sdóri) og Páll Orri Pálsson. Tjörvi Jónsson og Sindri Steinarsson voru tökumenn en Tjörvi sá einnig um alla eftirvinnslu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×