Innlent

Mun fleiri konur en karlar færa fórnir til að brúa bilið

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Niðurstöður könnunar Vörðu, rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins voru kynntar fyrir hádegi. Kristín Heba Gísladóttir er framkvæmdastjóri Vörðu.
Niðurstöður könnunar Vörðu, rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins voru kynntar fyrir hádegi. Kristín Heba Gísladóttir er framkvæmdastjóri Vörðu. Vísir/Vilhelm

Ný könnun Vörðu sýnir að mun hærra hlutfall kvenna en karla lengir fæðingarlof og hættir í vinnu til að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla. Framkvæmdastjóri Vörðu segir að afleiðingar ójafnrar ábyrgðar kynjanna á umönnun barna fylgi konum út ævina, til að mynda með lægri lífeyrisgreiðslum.

Varða, rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins, réðst í umfangsmikla úttekt á því hvernig fjölskyldur fara að því að samræma fjölskyldulíf og atvinnulíf. Rúmlega 300 þátttakendur í könnuninni eru fengnir úr þjóðskrárúrtaki og tæplega 1300 í gegnum panelúrtak. 

Kristín Heba Gísladóttir framkvæmdastjóri Vörðu segir að meginniðurstaðan séu hin kynjuðu áhrif þess að samræma fjölskyldu-og atvinnulíf og þar halli á konur.

Fleiri konur lengja orlof eða hætta vinnu

„Þær taka meiri ábyrgð á því að samræma fjölskyldulíf og atvinnulíf. Við sjáum til dæmis á niðurstöðunum að það er mun hærra hlutfall kvenna sem lengir fæðingarorlofið sitt, samanborið við karla og líka mun hærra hlutfall kvenna sem hættir í vinnu til að brúa þetta bil eftir að fæðingarorlofi lýkur eða þar til börnin komast inn á leikskóla eða til dagforeldris.“

Ný könnun Vörðu varpar ljósi á hvernig fjölskyldur fara að því að brúa umönnunarbilið svokallaða. Þáttur kvenna vegur þar enn þyngst.Vísir/Getty

Mun fleiri konur í hlutastarfi vegna barna

Mun minni atvinnuþátttaka sé hjá mæðrum en feðrum. Af öllum konum á vinnumarkaði eru aðeins 68% í fullu starfi.

„Þetta er mjög ólíkt því sem við sjáum hjá körlunum þar sem 96% karla eru í fullu starfi og langalgengast er að karlar tilgreini að þeir geti ekki verið í fullu starfi vegna heilsu sinnar. En mikill meirihluti kvenna er í hlutastarfi til að auðvelda að samræma fjölskyldu og atvinnulíf.“

Lengra fæðingarorlof skili lægri lífeyrisgreiðslum

Kristín Heba segir að þessi skipting hafi ekki aðeins áhrif á konur til skemmri tíma heldur líka lengri tíma.

„Konur sem eiga til dæmis þrjú börn og lengja alltaf fæðingarorlofið sitt þá eru þær með minni tíma á vinnumarkaði sem gerir það að verkum að lífeyrisgreiðslur þeirra eru minni sem gerir það að verkum að þær fá minni lífeyri þegar þær komast á eftirlaunaaldur þannig að þetta fylgir konur síðan út allt lífshlaupið þessi ójafna skipting kynjanna hvað varðar ábyrgð á börnum.“

Kristín bendir á að þriðja vaktin sé líka skoðuð í rannsókninni.

„Bæði eru það mæðurnar sem sjá nánast alfarið um samskipti við skólana og síðan eru það líka skólarnir sem hafa samband við mæðurnar þegar eitthvað kemur upp á. Við erum bara með mælingu á að þriðja vaktin lendi á mömmunum.“


Tengdar fréttir

Hátt í 700 börn á bið eftir fullu plássi á frí­stunda­heimili

Alls bíða hátt í 700 börn eftir fullu plássi á frístundaheimili í Reykjavík. Hluti þessara barna er með vistun hluta dags. Flest börn bíða eftir plássi á frístundaheimilum sem tilheyra Austurmiðstöð. Enn á eftir að manna 52,3 stöðugildi. Búið er að manna 82,6 prósent grunnstöðugilda. 

Heimgreiðslur auðveldi „átta mánaða púsluspil“

Foreldrar í Garðabæ eru þakklátir fyrir að heimgreiðslur séu í boði í sínu sveitarfélagi því úrræðið auðveldi þeim að skipuleggja það átta mánaða púsluspil sem fram undan er. Foreldrar hátt í hundrað hafnfirskra barna nýta sér heimgreiðslur til að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×