Sport

Þekktasta rödd pílukastsins leggur míkra­fóninn á hilluna

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Það kannast líklega allir sem hafa fylgst með pílukasti við rödd Russ Bray.
Það kannast líklega allir sem hafa fylgst með pílukasti við rödd Russ Bray. Pieter Verbeek/BSR Agency/Getty Images

Russ Bray, dómari og líklega þekktasta rödd pílukastsögunnar, ætlar sér að leggja míkrafóninn á hilluna eftir heimsmeistaramótið í pílukasti sem hefst í næsta mánuði.

Bray, sem er líklega betur þekktur sem „The Voice“ eða „Röddin“ á íslensku, hefur verið dómari á 27 heimsmeistaramótum í pílukasti. Mótið í ár verður því númer 28 og jafnframt hans síðasta.

Flestir sem hafa fylgst með pílukasti undanfarin ár þekkja einmitt rödd Bray, en hann lætur iðulega vel í sér heyra þegar keppendur kasta þremur pílum í þrefaldan tuttugu og næla sér í 180 stig.

Bray hefur spilað lykilhlutverk í pílukastheiminum síðastliðna fjóra áratugi, en ætlar sér nú að snúa sér að öðru en dómgæslu í íþróttinni. Hann mun taka að sér sendiherrastöðu innan PDC (The Professional Darts Corporation) á næsta ári. Hans seinasti leikur sem dómari í pílukasti verður úrslitaleikur heimsmeistaramótsins þann 3. janúar á næsta ári.

Bray hóf störf sem dómari hjá PDC árið 1996, en þessi 66 ára gamli dómari hefur verið á sviðinu þegar mörg eftirminnilegustu augnablik pílukastsins hafa átt sér stað. Sautján sinnum hefur hann verið að dæma þegar keppandi klárar legg í níu pílum, þar á meðal var hann dómari þegar Phil Taylor kláraði í níu pílum árið 2002, en það var í fyrsta sinn sem slíkt gerðist í beinni sjónvarpsútsendingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×