Innlent

Að­stæður svipi veru­lega til upp­hafs eld­gossins í mars 2021

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Skjálftavirkni hefur haldist stöðug síðustu daga, en þó virðist töluvert hafa dregið úr fjölda skjálfta síðasta sólarhringinn.
Skjálftavirkni hefur haldist stöðug síðustu daga, en þó virðist töluvert hafa dregið úr fjölda skjálfta síðasta sólarhringinn. Vísir/Vilhelm

Átta sólarhringar eru síðan innskot ruddi sér leið inn í jarðskorpuna undir Grindavík. Öll gögn þykja benda til þess að kvika sé komin í efstu lög jarðskorpunnar, jafnvel í efstu 500 metrana. 

Skjálftavirkni á Reykjanesskaga hefur haldist stöðug síðustu daga, að því er kemur fram í tilkynningu frá Eldfjalla- og náttúruvárhópi Suðurlands. Þó virðist töluvert hafa dregið úr fjölda skjálfta síðasta sólarhring. Þá kemur fram að land haldi áfram að síga í Grindavík en þó með minni hraða. Líklegasti eldsuppkomustaðurinn sé við Hagafell norðan Grindavíkur.

„Aðstæður núna þykja svipa verulega til þess er gosið í Geldingadölum hófst í mars 2021. Innskot undir Fagradalsfjalli hafði þá verið að vinna sér leið upp á yfirborðið í þrjár vikur áður en hún náði upp,“ segir í tilkynningunni. 

Land virðist rísa á ný

Þá segir að síðustu dagana fyrir eldgos hefði dregið verulega úr skjálftavirkni, auk þess sem að aflögun á yfirborði hefði nánast stöðvast. Því hafi verið spáð stuttu fyrir gosið að þeim atburði væri að ljúka án þess að til eldgoss kæmi. 

Loks segir að landris virðist vera hafið á nýjan leik yfir syllunni sem myndast hefur norðan og vestan Þorbjarnar.

„Land seig þar mikið á föstudeginum sem innskotið myndaðist. GPS mælar við Eldvörp, Skipastígahraun og Svartsengi sýna nú að land hefur síðustu vikuna risið mun hraðar en áður en innskotið varð - allt að 15 millimetra á dag. Má þvi vera að kvikusöfnun í sylluna sé hraðari en áður og að stutt verði í það dragi til tíðinda á nýjan leik í jarðhræringum, óháð því hvort það gjósi núna eða ekki,“ segir í tilkynningu. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×