Innlent

Ekki líkam­lega erfið verk­efni en reyna mjög á and­lega

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Björgunarsveitarfólk hefur staðið vaktina í og við Grindavík síðustu vikurnar og ekki sér fyrir endan á.
Björgunarsveitarfólk hefur staðið vaktina í og við Grindavík síðustu vikurnar og ekki sér fyrir endan á. Vísir/Vilhelm

Aðgerðarstjóri björgunarsveitarinnar Suðurnes segir verkefnin í Grindavík síðustu daga hafa reynt mikið á björgunarsveitafólk. Verkefnin séu ekki erfið líkamlega en reyni mikið á andlegu hliðina. Hann á von á að ástandið verði viðvarandi næstu mánuðina.

Helstu verkefni björgunarsveitarinnar Suðurnes síðustu daga hafa snúist um að standa vaktina á lokunarpóstum við Grindavík, auk þess sem björgunarsveitarfólk hefur ferjað íbúa inn í bæinn til að vitja eigna sinna. 

Aðgerðarstjóri sveitarinnar, Haraldur Haraldsson, segir að heilt yfir hafi gengið vel en aðstæður séu mjög krefjandi. 

„Þetta er ekki mjög líkamlega erfitt verkefni en það reynir mjög á andlega fyrir björgunarsveitafólk. Við erum að fylgja fólki á jafnvel versta tíma lífs þess, inn á æskuheimili eða heimili sem það er að byggja upp. Mögulega er það að fara í síðasta skipti inn, ef allt fer á versta veg.“

Við auðvitað finnum á fólki að því líður ekki vel. Við tæklum þetta af virðingu við fólkið og reynum að styðja við það eins og við mögulega getum.

Haraldur segir að vel hafi gengið að manna vaktir undanfarið. Hann á von á að um viðvarandi ástand sé að ræða sem geti komið til með að standa yfir mánuðum saman.

Verkefni björgunarsveita felast meðal annars í því að manna lokunarpósta. Vísir/Vilhelm

Er þitt fólk ekkert smeykt að vera inni á svæðinu?

„Auðvitað. En við vitum að allar mögulegar mótvægisaðgerðir eru í gangi. Á meðan við vitum að það er verið að passa okkur, á meðan við pössum fólkið sem við erum að fylgja, þá líður okkur betur. Það er verið að gera þetta á eins öruggan hátt og hægt er. Við gerum allt til að standa við bakið á félögum okkar í Grindavík,“ segir Haraldur Haraldsson, aðgerðarstjóri björgunarsveitarinnar Suðurnes.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×