Ísland sat hjá í atkvæðagreiðslunni líkt og Danir, Svíar og Finnar. Noregur var eitt Norðurlanda sem greiddi atkvæði með tillögunni. Kanada lagði til breytingu á tillögunni, sem 88 aðildarríki studdu þar á meðal Ísland, en þar var lögð meiri áhersla á fordæmingu Hamas. Breytingartillagan náði ekki fram að ganga.
Upphaflega tillagan var því samþykkt og kusu 120 lönd með tillögunni. 14 þjóðir, þar á meðal Bandaríkin, kusu á móti og 45 sátu hjá, þar á meðal Ísland.

Afstaða Íslands við atkvæðagreiðsluna hefur verið mikið deilumál enda fjölgar stöðugt í hópi látinna á Gassa. Talið er að tíu þúsund manns, þar af um fjögur þúsund börn, hafi fallið í árásum Ísraela síðan Hamas-samtökin gerðu loftárásir í Ísrael, felldu hundruð Ísraela og tóku á þriðja hundrað manns í gíslingu.
Efnt hefur verið til samstöðu- og mótmælafunda hér á landi, síðast í gær í Tjarnargötu á meðan ríkisstjórnin fundaði.
Í nýrri könnun Maskínu kemur fram að 71 prósent landsmanna séu óánægð með ráðstöfun á atkvæði Íslands. 13 prósent eru ánægð og 16 prósent eru hvorki ánægð né óánægð. Athygli vekur að stærstur hluti óánægðra er mjög óánægður eða 59 prósent.
Fólk í öllum aldurshópum er frekar óánægt en ánægt með afstöðu Íslands. Þannig eru 77 prósent óánægð í flokknum 18-29 ára en lægsta hlutfallið er í elsta aldurshópnum, sextíu ára og eldri. Þar eru samt 64 prósent óánægð með afstöðu Íslands.

Konur eru talsvert óánægðari en karlar, sem þó eru flestir óánægðir. 85 prósent kvenna er óánægð á meðan 59 prósent karla eru óánægðir. 18 prósent karla eru ánægðir með afstöðu Íslands.
Þá gætir mestrar óánægja meðal íbúa í Reykjavík eða rúmlega 80 prósent. Hlutfallið er rúmlega 60 prósent í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur. Þá er áberandi meiri óánægja meðal fólks með háskólapróf og fólks með grunnskólapróf. 82 prósent fólks með háskólapróf er óánægt en hlutfallið er 60 prósent hjá fólki með grunnskólapróf.

Sveiflan er ekki svo mikil ef horft er til tekna fólks. Fólk með heimilistekjur á bilinu 550-799 þúsund á mánuði er óánægðast, eða 79 prósent í þeim tekjuhópi. 66 prósent fólks með heimilistekjur undir 400 þúsund eru óánægð með ákvörðun Íslands.
Mest sveifla er þó þegar horft er til pólitískra skoðana fólks. 97 prósent sósíalista eru óánægðir, 95 prósent Pírata, 86 prósent kjósenda Samfylkingarinnar, 80 prósent kjósenda Viðreisnar, 77 prósent kjósenda VG og 76 prósent kjósenda Flokks fólksins.
Hjá kjósendum Framsóknar gætir 51 prósent óánægju, 32 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins eru óánægðir og 38 prósent kjósenda Miðflokksins.
Könnunina í heild má sjá í tengdum skjölum hér að neðan.