Sport

Ólympíu­meistari sektaður fyrir of­beldi gegn fyrrum kærustu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alexander Zverev og Olga Sharypova sjást hér saman á meðan allt lék í lyndi.
Alexander Zverev og Olga Sharypova sjást hér saman á meðan allt lék í lyndi. Getty/Alexander Scheuber

Þýski tenniskappinn Alexander Zverev var dæmdur til að greiða stóra sekt fyrir meint ofbeldi gegn fyrrum kærustu sinni.

Zverev er ríkjandi Ólympíumeistari í tennis frá því í Tókýó 2020 og hann er fyrrum næstefsti maður á heimslistanum í tennis.

Dómari í Þýskalandi dæmdi hinn 26 ára gamla Zverev til að greiða 450 þúsund evrur í sekt eða 66,7 milljónir íslenskra króna.

Zverev neitar ásökunum og hefur mótmælt dómnum. Hann er því enn saklaus samkvæmt lögunum eða þar til að andmæli hans verða tekin fyrir. Málið er nú líklega til að fara fyrir opinberan dómstól.

AFP og aðrir fjölmiðlar segja frá því að Zverev sé sakaður um að hafa beitt fyrrum kærustu sína ofbeldi eftir rifrildi í íbúð þeirra í Berlín í maí 2020.

Dómarinn komst að þeirri niðurstöðu að sekta hann eftir að hafa lesið sönnunargögn málsins. Dómarinn taldi að hann gæti komist að réttlátri niðurstöðu án þess að málið færi fyrir rétt. Sakborningur hefur rétt til andmæla sem þýðir vanalega að málið fari fyrir opinberan dómstól.

Gamla kærastan heitir Olya Sharypova og eiga þau barn saman. Hún sakaði hann bæði um líkamlegt og andlegt ofbeldi. Alþjóða tennissambandið fann á sínum tíma ekki nægileg sönnunargögn í málinu til að dæma Zverev í keppnisbann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×