Sport

Gunnar í­hugar fram­tíð sína hjá UFC sem slítur sam­starfi sínu við USADA

Aron Guðmundsson skrifar
Feðgarnir Haraldur og Gunnar Nelson á góðri stundu
Feðgarnir Haraldur og Gunnar Nelson á góðri stundu Vísir/Getty

Ó­víst er hvað ís­lenski UFC bar­daga­kappinn Gunnar Nel­son mun gera ef fyrir­huguð enda­lok á sam­starfi UFC við banda­ríska lyfja­eftir­litið raun­gerast. Þetta segir Haraldur Nel­son, faðir hans og um­boðs­maður en mikil ó­vissa er uppi varðandi það hvernig og yfir höfuð hvort UFC muni halda á­fram að láta lyfja­prófa sína bar­daga­menn frá og með 1. janúar á næsta ári.

Greint var frá því í gær að sam­starf UFC bar­daga­sam­takanna við banda­ríska lyfja­eftir­litið (USADA) myndi líða undir lok strax í byrjun þessa árs.

Í yfir­lýsingu sem fram­kvæmda­stjóri USADA, Tra­vis Tygart, sendi frá sér varðandi enda­lok sam­starfs lyfja­eftir­litsins við UFC segir að upp á síð­kastið hafi sam­band þessara tveggja aðila stirðnað.

Fréttirnar koma skömmu eftir að USADA stað­festi að írski bar­daga­kappinn Conor McGregor væri aftur kominn á skrá hjá sér en í tengslum við þær vendingar segir Tra­vis USADA hafi verið skýrt í sinni af­stöðu. McGregor myndi ekki fá neina undan­þágu hjá þeim til þess að snúa fyrr inn í bar­daga­búrið.

McGregor hefur um margra ára bil verið and­lit UFC út á við, helsta stjarna sam­takanna. Tra­vis segir sam­bandið milli USADA og UFC verið ó­við­unandi sökum yfir­lýsinga full­trúa UFC varðandi McGregor og mögu­lega undan­þágu hans frá reglum USADA.

Við­ræður um á­fram­haldandi sam­starf höfðu verið í gangi milli full­trúa USADA og UFC en nú er það að frum­kvæði UFC sem á­kvörðun hefur verið tekin um að sam­starfið muni líða undir lok strax í byrjun næsta árs. Deilu­mál varðandi stöðu Conor McGregor eru sögð spila stóran þátt í enda­lokum sam­starfsins.

Írski UFC bardagakappinn Conor McGregorVísir/Getty

„Ömur­legar fréttir“

Fréttirnar koma eins og þruma úr heið­skýru lofti fyrir ís­lenska bar­daga­kappann Gunnar Nel­son og hans teymi, sem hefur verið afar á­nægt með vinnu­brögð USADA í gegnum tíðina. Sjálfur hefur Gunnar lýst því yfir hversu mikil­vægt honum finnist að utan­um­haldið í kringum lyfja­prófanir sé gott og strangt.

„Ég sendi honum þessar fréttir í morgun og hann svaraði því með því að segja að þetta væru ömur­legar fréttir. Ef þetta færi svona,“ segir Haraldur Nelson, faðir og umboðsmaður Gunnars. „Maður á eftir að sjá hvað kemur út úr þessu. Hvort að þetta muni fara svona eins og það stefnir í að þetta fari. Að sam­starf UFC og USADA líði undir lok þarna strax á nýju ári. Ég bara trúi því ekki að UFC ætli að hætta lyfja­prófa sína bar­daga­menn. Það yrðu ömur­legar fréttir.“

Farið í um 40 lyfja­próf

Mikil á­nægja hefur ríkt hjá Gunnari sjálfum sem og teyminu í kringum hann varðandi sam­starfið við USADA sem og Lyfja­eftir­lit Ís­lands sem fram­kvæmir um­ræddar prófanir fyrir USADA hér á landi.

„Við höfum verið rosa­lega á­nægðir með fyrir­komu­lagið og sam­starfið með USADA í gegnum tíðina. Síðan að þeir byrja að lyfja­prófa hefur Gunnar farið í rétt um fjöru­tíu lyfja­próf og svona viljum við auð­vitað hafa þetta.“

Gunnar Nelson er fyrsti og eini fulltrúi Íslands í UFC til þessaVísir/Getty

„Hve­nær og hvar hefur Gunnar hefur til dæmis verið settur í lyfja­próf hefur verið af mjög handa­hófs­kenndum hætti. Ég hef það stað­fest frá Lyfja­eftir­liti Ís­lands að það er enginn í­þrótta­maður hér á landi settur oftar í lyfja­próf en Gunnar.

Núna í mars á þessu ári var Gunnar settur þrisvar sinnum í lyfja­próf. Það liðu að­eins nokkrir dagar á milli lyfja­prófa og þú getur aldrei verið viss um hve­nær og hve­nær ekki þú verður settur í lyfja­próf. Bar­daga­menn á vegum UFC þurfa alltaf að til­kynna sig inn. Hvar þeir dvelja ef þeir fara úr landi, hvert þeir séu að fara.“

Gunnar ræðir við föður sinn og umboðsmann, Harald Nelson fyrir UFC 231 bardagakvöldiðVísir/Getty

Haraldur viður­kennir að það geti auð­vitað verið mikið á tímum en þeir hafi hingað til fagnað þessu utan­um­haldi.

„Gunnar fór til að mynda til Búda­pest í helgar­ferð fyrir ekki svo löngu síðan. Hann er á leið í skoðunar­ferð um borgina þegar að síminn hringir. Ung­verska lyfja­eftir­litið er þá mætt upp á hótel til hans í Búda­pest til þess að taka hann í lyfja­próf.

Hann þurfti því að taka leigu­bíl frá þeim stað sem hann var, upp á hótel og fara í þetta lyfja­próf. Við höfum bara verið mjög á­nægðir með þetta fyrir­komu­lag.

Gunnar hefur lýst því yfir að hann sé ekki til­búinn í að fara berjast við ein­hverja stera­köggla. Þetta eru því afar vondar fréttir fyrir hann og okkur sem eru nú að berast af enda­lokum sam­starfs UFC og USADA.“

Lyfja­próf verði að vera á borði ó­háðs aðila

Það hefur nefni­lega verið á­berandi í gegnum tíðina hversu mikla á­herslu Gunnar leggur á að reglurnar og fyrir­komu­lagið varðandi lyfja­prófin séu góðar.

Hann hefur verið mjög á­nægður með utan­um­haldið hjá UFC og nefnt það í við­tölum áður að akkúrat þessi stefna sam­takanna hafi valdið því að hann hafi ekki hugsað sér hreyfings og skrifað undir samning hjá öðrum bar­daga­sam­tökum þrátt fyrir á­huga.

„Ég tel bara mjög vafa­samt, og það er bara mín per­sónu­lega skoðun, ef UFC ætlar sér að fara taka lyfja­prófanirnar innan­húss hjá sér. Það yrðu bara ekki góðir starfs­hættir. Það segir sig sjálft að í svona yrði að vera þriðji aðili að sjá um þetta, ó­háður aðili.

Þú getur ekki verið að lyfja­prófa sjálfan þig. Það yrði auð­vitað skárra en engar lyfja­prófanir en þeir yrðu þá að sýna manni fram á það væri al­vöru eftir­lit með þessu. Þess vegna skil ég ekki af hverju þeir geta ekki notað USADA og WADA sem eru þessi al­þjóð­legu lyfja­eftir­lit sem fólk tekur mark á.“

Óvíst hvað Gunnar muni þá gera

Nú sé bara að vona að menn sjái að sér. Að USADA og UFC nái að finna ein­hvern flöt á frekara sam­starfi áður en nýtt ár rennur upp. Annars sé ó­víst hvað taki við.

„Við vonum bara að það rætist úr þessu. Að þessir aðilar nái aftur saman. Það er nú smá tími fram að ára­mótum. En ef ekki, þá í raun veit ég ekki hvað Gunnar gerir,“ segir Haraldur. Gunnar íhugi nú framtíð sína.

UFC 286 Official Weigh-in LONDON, ENGLAND - MARCH 17: Gunnar Nelson of Iceland poses on the scale during the UFC 286 official weigh-in at Hilton London Canary Wharf on March 17, 2023 in London, England. (Photo by Jeff Bottari/Zuffa LLC via Getty Images)

„Ég veit það bara að Gunnar er ekki til­búinn til þess, held ég, að berjast undir merkjum ein­hverra sem eru ekki að lyfja­prófa sína bar­daga­kappa. Það kæmi mér alla­vegana veru­lega á ó­vart. Hann er alla­vegana klár­lega ekki að fara setja í sig eitt­hvað svona skíta drasl.“

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×