Innlent

Hljóð­færa­leikarar landa kjara­samningi við ríkið

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Sinfóníuhljómsveit Íslands með skólatónleika í Hörpu.
Sinfóníuhljómsveit Íslands með skólatónleika í Hörpu. Vísir/Vilhelm

Samningar hafa náðst í kjara­deilu hljóð­færa­leikara Sin­foníu­hljóm­sveitar Ís­lands við ríkið. Skrifað var undir samninga hjá ríkis­sátta­semjara á sjöunda tímanum í kvöld.

Þetta kemur fram í til­kynningu frá Stjórnar­ráðinu. Þar segir að rekstur Sin­fóníu­hljóm­sveitar Ís­lands (SÍ) hafi verið erfiður undan­farin ár, einkum vegna á­hrifa heims­far­aldurs kórónu­veiru sem olli sam­drætti í tón­leika­haldi hljóm­sveitarinnar.

Áður hafði Víkingur Heiðar Ólafs­son, píanó­leikari, tekið upp hanskann fyrir hljóm­sveitina í sam­tali við frétta­stofu. Hann sagði í dag að hræði­legt yrði ef hljóm­sveitin færi í verk­fall líkt og stefndi í. Hann sagði það taka ára­tugi að byggja upp menningar­stofnanir en stuttan tíma að hola þær að innan.

Eins og fram hefur komið vísaði Starfs­manna­fé­lag SÍ (SMFSÍ) kjara­deilu sinni til ríkis­sátta­semjara í júní síðast­liðnum. Ríkis­sátta­semjari og samninga­nefndin lögðu ríka á­herslu á að­komu ráðu­neytis menningar­mála til lausnar deilunni.

Hljóð­færa­leikarar Sin­fóníu­hljóm­sveitar Ís­lands sam­þykktu í byrjun septem­ber að boða til verk­falls. Fyrsta vinnu­stöðvunin var fyrir­huguð á morgun, 28. septem­ber, en á­hersla var lögð á að leita allra leiða til að ekki kæmi til verk­falls.

Segir í til­kynningunni að innan vé­banda SÍ hafi mikil vinna átt sér stað undan­farið til að bregðast við fjár­hags­stöðu hljóm­sveitarinnar. Engu að síður var ljóst að ef til vinnu­stöðvunar kæmi, gæti hljóm­sveitin ekki staðið við skuld­bindingar sínar og grafið væri undan mögu­leikum hljóm­sveitarinnar til að afla sér­tekna.

Með hlið­sjón af ofan­greindu lagði menningar- og við­skipta­ráðu­neytið til að Sin­fóníu­hljóm­sveit Ís­lands fengi við­bótar­fjár­veitingar sem nema 15 m.kr. árið 2023 og 45 m.kr. árið 2024 til að standa undir kostnaði við launa­hækkanir til að tryggja rekstrar­grund­völl sveitarinnar og efla vinnu­staða­menningu.

„Sin­fóníu­hljóm­sveit Ís­lands gegnir lykil­hlut­verki í ís­lensku tón­listar­lífi. Það er því afar á­nægju­legt að búið sé að semja. Verk­fall hefði getað haft veru­lega nei­kvæð á­hrif á menningar­lífið í landinu,“ segir Lilja Dögg Al­freðs­dóttir, menningar- og við­skipta­ráð­herra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×