Sport

Ellefu þúsund dæmdir úr leik fyrir að svindla í maraþoni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Úr Mexíkó-maraþoninu.
Úr Mexíkó-maraþoninu. getty/Hector Vivas

Rúmlega þriðjungur keppenda sem tóku þátt í Mexíkó-maraþoninu hafa verið dæmdir úr leik fyrir að svindla.

Yfir þrjátíu þúsund manns tóku þátt í fertugasta Mexíkó-maraþoninu 27. ágúst síðastliðinn. Nú hafa ellefu þúsund þeirra verið dæmdir úr leik fyrir að svindla.

Skipuleggjendur maraþonsins hófu að rannsaka málið eftir að hafa fengið nafnlausar kvartanir um að keppendur hefðu haft rangt við og ekki klárað hlaupið. Keppendur voru sakaðir um að nota ökutæki eða almenningssamgöngur til að stytta sér leið.

Svo reyndist líka vera en rannsókn skipuleggjenda maraþonsins leiddi víðtækt svindl í ljós. Þetta uppgötvaðist þegar gögn úr rafflögum sem keppendur voru með voru skoðuð. Í kjölfarið voru tímar ellefu þúsund keppenda í Mexíkó-maraþoninu dæmdir ógildir.

Einhverjir þeirra sem voru dæmdir úr leik hafa reynt að afsaka sig með því að búnaðurinn hafi ekki virkað og því hafi tímar þeirra ekki verið réttir. Ólíklegt þykir að sú afsökun haldi vatni.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem fjöldi keppenda í Mexíkó-maraþoninu er dæmdur úr leik. Fyrir sex árum voru nefnilega sex þúsund manns dæmdir úr leik fyrir að svindla, eða tuttugu prósent keppenda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×