Sport

Fjalla um ís­lensku stelpuna sem fékk hita­slag en kom til baka og vann brons

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bergrós Björnsdóttir ofhitnaði á fyrsta degi á heimsleikunum og það var mjög mikilvægt að kæla sig niður á milli krefjandi greina enda mikinn hiti úti. Móðir hennar náði þessari mynd af henni í ísbaði.
Bergrós Björnsdóttir ofhitnaði á fyrsta degi á heimsleikunum og það var mjög mikilvægt að kæla sig niður á milli krefjandi greina enda mikinn hiti úti. Móðir hennar náði þessari mynd af henni í ísbaði. @begga_bolstrari

Íslenska CrossFit stelpan Bergrós Björnsdóttir er í sviðsljósinu hjá Morning Chalk Up vefnum í dag þar sem farið er vel yfir afrek hennar á heimsleikunum.

Hin sextán ára gamla Bergrós var eini Íslendingurinn sem komst á verðlaunapall á heimsleikunum í ár en hún tryggði sér þriðja sætið í flokki sextán til sautján ára stelpna.

Blaðamaður Morning Chalk Up ræddi við hina stórefnilegu Bergrós og fjallaði um baráttu hennar við Wisconsin sólina.

Þar er farið sérstaklega yfir aðra greinina þar sem Bergrós fékk hitaslag og hneig niður í miðri keppni. Hún var borin af velli af læknaliði leikanna.

„Þetta tók mikinn líkamlegan og andlegan toll af mér og var enn eitt prófið á þrautseigju mína,“ sagði Bergrós í viðtalinu.

Bergrós fékk góða aðstoð frá læknaliðinu og tókst að koma sér aftur á lappir. „Þrátt fyrir þetta áfall og krefjandi æfingar þá var ég staðráðin að láta þetta ekki stoppa mig,“ sagði Bergrós.

Bergrós meiddist líka á baki á heimsleikunum árið áður og var þá frá keppni í nokkra mánuði. Hún komst í gegnum það og sannaði enn á ný hversu andlega sterk hún er.

„Ég var svo stolt af því að ég náði að fá laun fyrir allt erfiðið. Ég var stolt af sjálfri mér fyrir að komast í gegnum allt mótlætið sem varð á vegi mínum,“ sagði Bergrós.

Bergrós segir líka frá því að hún æfir í CrossFit Reykjavik þrátt fyrir að búa á suðurlandinu.

Hún ferðast því í tvo tíma á dag til að geta æft þar. Hún segir að það sé þess virði að fá tækifæri til að æfa með þeim bestu í íþróttinni og fá að læra af þeim. Gott dæmi um það þegar hún og Anníe Mist Þórisdóttir kepptu saman á Reykjavíkurleikunum í vetur.

Greinin á Morning Chalk Up vefnum.Morning Chalk Up

Tengdar fréttir

Bergrós eftir að hafa nælt í bronsið: „Vildi enda þetta með stæl“

Bergrós Björns­dóttir tryggði sér í gær brons­verð­laun í flokki sex­tán til sau­tján ára stelpna á heims­leikum Cross­fit sem fram fara í Banda­ríkjunum þessa dagana. Þetta er í annað sinn sem Bergrós mætti til leiks á heims­leikum Cross­Fit og gekk hún í gegnum allan til­finninga­skalann í þetta skipti því strax á fyrsta keppnis­degi lenti hún í erfiðri reynslu. Fékk hita­slag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×