Erlent

Lykil­hrá­efni lífs í neðan­jarðar­hafi tungls Satúrnusar

Kjartan Kjartansson skrifar
Baklýstir strókar vatnsíss ganga upp úr sprungum í ísskorpunni á suðurpól Enkeladusar. Cassini-geimfarið flaug í gegnum strókana og efnagreindi þá. Myndin var tekin í leiðangri Cassini árið 2009.
Baklýstir strókar vatnsíss ganga upp úr sprungum í ísskorpunni á suðurpól Enkeladusar. Cassini-geimfarið flaug í gegnum strókana og efnagreindi þá. Myndin var tekin í leiðangri Cassini árið 2009. NASA/JPL-Caltech/Space Science Institute

Ofgnótt af frumefninu fosfór, sem er nauðsynleg byggingareining lífs eins og við þekkjum það, er líklega að finna í neðanjarðarhafi undir ísskorpi Enkeladusar, tungls Satúrnusar. Efnasambönd sem innihalda frumefnið fundust í einum hringja Satúrnusar sem íshverir Enkeladusar fóðra.

Jarðfræðilega virk ístungl eins og Enkeladus þykja einhverjir líklegustu staðirnir utan jarðarinnar til að geta hýst líf í sólkerfinu okkar. Undir skorpum Enkeladusar og Evrópu, tungls Júpíters, er talið að sé að finna meira fljótandi vatn en í öllum höfum jarðar. Tilgátan er að þrátt fyrir sólarleysið gæti líf hafa kviknað við jarðhitastrýtur á hafsbotninum, líkar þeim sem þekkjast á jörðinni.

Forsenda þess er þó að frumefni sem eru nauðsynleg lífi, að minnsta kosti í þeirri mynd sem við þekkjum það, séu til staðar í þessum framandi höfum. Stjörnufræðingar hafa fundið natríum, kalín, klór og karbónatsambönd með því að efnagreina ískorn sem spýtast út um sprungur á yfirborði Enkeladusar.

Svonefndur E-hringur Satúrnusar er daufur hringur úr ísögnum utan við breiðu og björtu aðalhringina. Ísstrókar Enkeladusar eru taldir leggja E-hringnum til efni. Skuggahlið tunglsins sést á myndinni inni í hringnum.NASA/JPL-Caltech/Space Science Institute

Ný greining vísindamanna á gögnum sem bandaríska geimfarið Cassini safnaði um svonefndan E-hring Satúrnusar leiddi í ljós að ískorn sem eru talin upprunin úr hafi Enkeladusar innihalda fosföt, efnasambönd sem innihalda fosfór. Cassini flaug ítrekað í gengum stróka sem stóðu upp úr ísskorpu Enkeladusar á þeim þrettán árum sem leiðangurinn stóð yfir.

Fosfór er minnst útbreitt þeirra frumefna sem þarf í líffræðileg ferli og það hafði ekki fundist á Enkeladusi áður. Það er meðal annars byggingareining kjarnsýra og er að finna í beinum spendýra, frumuhimnum og í þörungum í sjó. Frumefnið er einnig í lykilhlutverki í sameindum sem flytja orku í jarðneskum lífverum.

Sláandi uppgötvun í stjörnulíffræði

Þetta er í fyrsta skipti sem fosfór finnst í hafi utan jarðarinnar. Rannsóknir á tilraunastofu benda til þess að styrkur fosfórs í hafi Enkeladusar sé að minnsta kosti hundrað sinnum meiri en í höfum jarðar, að því er kemur fram í grein á vef bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA.

Út frá gögnunum og tölvulíkönum telja stjörnufræðingarnir að fosföt kunni að vera að finna í fleiri neðanjarðarhöfum í sólkerfinu, sérstaklega á hnöttum sem mynduðust úr ís frá myndun sólkerfisins sem inniheldur koltvísýring og þar sem fljótandi vatn kemst í snertingu við berg.

Auk Evrópu hafa stjörnufræðingar séð merki þess að neðanjarðarhaf sé að finna á Ganýmedesi og Kallistó, tunglum Júpíters, og Trítoni, tungli Neptúnusar. Sambærilegir ísstrókar og þekktir eru á Enkeladusi hafi sést stafa frá yfirborði Trítons.

„Þetta lykilhráefni gæti verið í svo miklu magni að það gæti staðið undir lífi í hafi Enkeladusar. Þetta er sláandi uppgötvun í stjörnulíffræði,“ segir Christopher Glein, reikistjörnu- og efnafræðingur við Southwest Research Intistute í Texas í Bandaríkjunum og einn rannsakendanna.

Glein leggur þó áherslu á að niðurstaðan þýði ekki að líf hafi fundist á Enkeladusi.

„Það er nauðsynlegt að hafa hráefnin en það getur verið að þau séu ekki nóg til þess að umhverfi utan jarðarinnar geti hýst líf. Hvort að líf gæti hafa kviknað í hafi Enkeladusar er enn opin spurning.“


Tengdar fréttir

Stærsti „garð­úðari“ sól­kerfisins við Satúrnus

Hátt í tíu þúsund kílómetra langur vatnsstrókur frá Enkeladusi, ístungli Satúrnusar, sést teygja sig um reikistjörnukerfið eins og gusa úr garðúðara á nýlegum myndum James Webb-sjónaukans. Aldrei áður hefur slíkur strókur sést spanna svo miklar vegalengdir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×