Samkvæmt þessari ákvörðun utanríkisráðherra verða Rússar að draga úr umsvifum sínum hér í sendiráðinu um 70 prósent fyrir næstu mánaðamót. Íslendingar ætla síðan að loka sendiráðinu í Moskvu fyrir 1. ágúst.
Þá krefst utanríkisráðherra þess að rússneska sendiráðinu verði ekki stýrt af sendiherra. Hvorki af Mikahil Noskov núverandi sendiherra né öðrum. Eftir verði aðeins örfáir diplómatar og starfsmenn en í dag eru starfsmenn sendiráðsins um tuttugu.

„Við teljum einfaldlega eðlilegt með tilliti til þeirrar gagnkvæmni sem almennt á við í diplomatískum samskiptum, að ef við erum með enga starfsemi, leggjum hana niður að minnsta kosti tímabundið, sé eðlilegt að gera kröfu um að sendiráðinu hér sé ekki stýrt af sendiherra. Það leiðir af sér að hann fari aftur heim,“ segir Þórdís Kolbrún.
Noskov sendiherra var ansi borubrattur daginn sem Rússar hófu ólöglega innrás sína í Úkraínu hinn 24. febrúar í fyrra.

„Ég vil leggja áherslu á að markmið þessara aðgerða, eins og Pútín forseti sagði, er afvopnun og afnasistavæðing Úkraínu sem eru nauðsynleg skilyrði til að tryggja öryggi Donbas-lýðveldanna," sagði sendiherrann þegar hann skýrði ástæður hinnar sérstöku hernaðaraðgerðar eins og Rússar kalla innrásina.
Eftir innrásina hefur sendiherrann ítrekað gagnrýnt íslensk stjórnvöld harðlega, trúr stefnu Valdimirs Putin forseta. Hann hefur verið kallaður í utanríkisráðuneytið nokkrum sinnum vegna þess.
„Við höfum auðvitað tekið ákvörðun í góðum hópi annarra ríkja um að einangra Rússa einis og kostur er á meðan háttsemi þeirra er inni í Úkraínu,“ segir utanríkisráðherra.
I thank @ThordisKolbrun for Iceland’s decision to suspend operations of its embassy in Moscow and request Russia to limit the operations of its embassy in Reykjavík. Russia must see that barbarism leads to complete isolation. I encourage other states to follow Iceland’s example.
— Dmytro Kuleba (@DmytroKuleba) June 9, 2023
Dmytro Kuleba utanríkisráðherra Úkraínu var fljótur að þakka Þórdísi Kolbrúnu fyrir þessa ákvörðun á Twitter í dag. „Rússar yrðu að sjá að villimennska leiddi til einangrunar,“ sagði Kuleba og hvatti aðrar þjóðir til að fylgja fordæmi Íslendinga. Utanríkisráðherra segir að þetta þýði hins vegar ekki að stjórnmálasambandi ríkjanna hafi verið slitið.
„Við alla vega lítum til þess hvaða forsendur almennt eru fyrir því að starfrækja sendiráð. Sem eru þessi pólitísku tengsl, vilji til að viðhalda þeim jafnvel auka þau. Byggja á þeim og svo framvegis. Viðskipti á milli landa og menningarleg tengsl. Ekkert af þessu á einfaldlega við eins og staðan er núna," segir Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir.