Samninganefndir BSRB og Sambands íslenskra sveitarfélaga mættu til fundar í Karphúsinu um tíuleytið í morgun. Aðilar beggja fylkinga voru svartsýnir í aðdraganda fundarins.
„Því miður þá held ég að við séum enn á erfiðum stað. En við erum að sjálfsögðu tilbúin í áframhaldandi samtal,“ sagði Inga Rún í samtali við Heimi Má Pétursson.
Formenn og varaformenn hjá BSRB hafa lýst mistökum sem hafi orðið til í flýti í upphafi kórónuveirufaraldursins. Þau hafi ekki verið með ákvæði sem Starfsgreinasambandið var með í sínum samningi um að ef laun hækkuðu á almennum markaði þá fengu þau samsvarandi hækkun í janúar.
Inga segir málið ekki svo einfalt.
„Þetta tilboð frá okkur hafði legið á borðinu í sex mánuði. Vissulega var mikill erill þetta síðasta kvöld þegar samningar voru undirritaðir. En þetta var ekki nýtt tilboð sem kom fram þetta kvöld. Það hafði legið á borðinu í sex mánuði. Við eigum tölvupóstssamskipti sem við getum sýnt að við vorum að reyna að telja þeim hughvarf fram á síðustu stundu. En þau höfnuðu þessu tilboði og kröfðust þess að fá styttri samning sem var án launahækkunar frá 1. janúar.“
Hún segir miklu muna í að fallast á 128 þúsund krónu eingreiðslukröfu BSRB.
„Þetta er gríðarlegur kostnaður. Þetta er milljarður sem þessi eingreiðsla kostar. Þar sem hún er tilhæfulaus þá eru engin rök fyrir því að þetta fari ekki á alla okkar viðsemjendur sem voru í sömu stöðu.“
Telji BSRB sig svikna þá eigi þau að leita álits dómstóla.
„Við höfum marghvatt þau til að fara með þetta mál fyrir dóm telji þau á sér brotið. Við munum að sjálfsögðu hlýta niðurstöðu dóms. Við höfum líka boðið þeim gríðarlega góðan samning þar sem við erum að lyfta lægstu laununum. Í ljósi ástandsins í þjóðfélaginu í dag skiptir það verulegu máli. Okkur finnst þessum peningum betur varið í það að lyfta lægstu launum en að setja í eingreiðslu sem er fullkomlega tilhæfulaus.“
Inga Rún segir að í framhaldinu, þegar niðurstaða fæst í viðræður við BSRB, verði reynt að samræma samninga stéttarfélaga þar sem fólk vinni sömu störf.
„Það er mjög óheppilegt þegar stéttarfélög sem eru að semja um sömu störf séu ekki saman við samningaborðið svo hægt sé að samstilla samninga fullkomlega. Við erum í samtali við Starfsgreinasambandið jafnhliða þessum viðræðum við BSRB. Það er okkar markmið að ná þessari samstillingu núna frá 1. apríl.“
Verkfallsaðgerðir BSRB hafa meðal annars áhrif á starf um sjötíu leikskóla í 29 sveitarfélögum. Á fjórða tug sundlauga eru lokaðar og íþróttaæfingar liggja niðri víða þar sem íþróttahús eru lokuð.