Sport

Þrjár ís­lenskar á loka­mótið og sentí­metra munaði

Sindri Sverrisson skrifar
Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir hefur verið að kasta sleggjunni ansi nálægt Íslandsmetinu.
Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir hefur verið að kasta sleggjunni ansi nálægt Íslandsmetinu. FRÍ

Þrjár íslenskar frjálsíþróttakonur tryggðu sér í gær sæti á bandaríska háskólameistaramótinu (NCAA) en í einu tilviki mátti það ekki tæpara standa.

Sleggjukastararnir Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir og Elísabet Rut Rúnarsdóttir úr ÍR tryggðu sig inn á lokamótið af nokkru öryggi.

Guðrún var fyrr á ferðinni þar sem hún keppti í austurhluta undankeppninnar, og hún kastaði lengst 65,42 metra og var aðeins ellefu sentímetrum frá Íslandsmeti Elísabetar.

Elísabet keppti svo í vesturhlutanum og kastaði lengst 63,75 metra, sem dugði henni til níunda sætis en tólf efstu keppendur komust á lokamótið, þar sem Ísland mun því eiga tvo fulltrúa í sleggjukasti kvenna.

Erna Sóley Gunnarsdóttir komst svo inn á lokamótið með árangri sínum í kúluvarpi, en hefði ekki mátt kasta einum sentímetra styttra.

Erna fékk líkt og aðrir keppendur þrjár tilraunir og hafði lengst kastað 16,85 metra en náði svo að kasta 17,13 metra í lokakastinu.

Það var raunar jafnlangt kast og hjá Kaia Tupu-South sem varð í 13. sæti og missti af lokakeppninni þar sem að önnur köst Ernu voru lengri en hennar.

Bandaríska háskólameistaramótið fer fram í frjálsíþróttabænum Austin í Texas dagana 7.-10. júní.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.