Sleggjukastararnir Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir og Elísabet Rut Rúnarsdóttir úr ÍR tryggðu sig inn á lokamótið af nokkru öryggi.
Guðrún var fyrr á ferðinni þar sem hún keppti í austurhluta undankeppninnar, og hún kastaði lengst 65,42 metra og var aðeins ellefu sentímetrum frá Íslandsmeti Elísabetar.
Elísabet keppti svo í vesturhlutanum og kastaði lengst 63,75 metra, sem dugði henni til níunda sætis en tólf efstu keppendur komust á lokamótið, þar sem Ísland mun því eiga tvo fulltrúa í sleggjukasti kvenna.
Erna Sóley Gunnarsdóttir komst svo inn á lokamótið með árangri sínum í kúluvarpi, en hefði ekki mátt kasta einum sentímetra styttra.
Erna fékk líkt og aðrir keppendur þrjár tilraunir og hafði lengst kastað 16,85 metra en náði svo að kasta 17,13 metra í lokakastinu.
Það var raunar jafnlangt kast og hjá Kaia Tupu-South sem varð í 13. sæti og missti af lokakeppninni þar sem að önnur köst Ernu voru lengri en hennar.
Bandaríska háskólameistaramótið fer fram í frjálsíþróttabænum Austin í Texas dagana 7.-10. júní.