Körfubolti

„Fer enginn í fjölmiðla og reynir að sverta mitt mannorð“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristófer Acox fagnar sigri í leiknum í gær.
Kristófer Acox fagnar sigri í leiknum í gær. Vísir/Bára

Kristófer Acox, leikmaður Vals, ræddi ásakanir Lárusar Jónssonar, þjálfara Þórs, í sinn garð eftir oddaleik liðanna á Hlíðarenda í gærkvöld.

Kristófer og félagar hans í Val eru komnir í úrslitaeinvígið á móti Tindastóli eftir að hafa unnið upp 2-0 forskot Þórsara og tryggt sér sigur í einvíginu með sjö stiga sigri í oddaleik.

Jordan Semple, lykilmaður Þórsliðsins, meiddist í leik þrjú eftir samskipti við Kristfór. Lárus sakaði hann um að meiða Semple viljandi en baðst síðan afsökunar á því daginn eftir. KKÍ gaf síðan frá sér yfirlýsingu um að ekki hafi átt að refsa Kristófer fyrir atvikið.

Kristófer og Lárus fóru yfir málin út á gólfi eftir oddaleikinn og Kristófer var spurður út í þau samskipti í sjónvarpsviðtali eftir leikinn.

Kristófer ræddi lengi við Lárus og hann var spurður út í það hvort þeir væru búnir að hreinsa loftið almennilega?

„Já, ég held það. Þetta var ekkert alvarlegt. Við bara spjölluðum aðeins saman. Ég talaði aðeins við hann af því að ég var ekkert búinn að tjá mig um þetta persónulega eftir þessi viðtöl hans eftir leik fjögur,“ sagði Kristófer Acox.

„Hann sá að sér daginn eftir náttúrulega og ég sagði honum að ég virði það að sjálfsögðu. Það er enginn að fara með mitt nafn í fjölmiðla og reyna að sverta mitt mannorð eða ásaka mig um eitthvað svona alvarlegt finnst mér,“ sagði Kristófer.

„Ég veit það sjálfur og betur en allir og betur en allt fólkið á Facebook og alls staðar að ég var að sjálfsögðu ekki að reyna að meiða leikmanninn. Það er eitthvað sem ég hef aldrei gert og stend ekki fyrir,“ sagði Kristófer.

„Það er búið núna og áfram gakk. Ég held að hann viti það líka sjálfur og við erum bara góðir,“ sagði Kristófer. Var þetta kannski einhver hugarleikur hjá Þórsþjálfaranum að reyna að komast inn í huga hans og huga dómarana?

„Ég veit það ekki. Ég spurði hann ekki að því og það skiptir mig engu máli. Við hugsum bara um okkur númer eitt, tvö og þrjú. Við hlustum ekki á eitthvað utanaðkomandi rugl. Við þurfum að spila okkar leik en auðvitað var þetta mikill missir fyrir þá að missa bæði Pablo og Semple,“ sagði Kristófer.

„Það er ekkert sem við gerum í. Við þurfum að mæta hvort sem er að mæta og spila með okkar fimm leikmenn inn á. Við getum ekki stjórnað hvað er að gerast hjá hinum liðunum, bara hjá okkur,“ sagði Kristófer

Klippa: Kristófer Acox: Þetta var orðið óþægilegt

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×