Erlent

Starfsmenn Tesla deildu viðkvæmum myndum viðskiptavina

Árni Sæberg skrifar
Elon Musk er forstjóri Tesla.
Elon Musk er forstjóri Tesla. Nora Tam/Getty

Hópur starfsmanna bílaframleiðandans Tesla segir að myndir og myndskeið, sem bílar viðskiptavina fyrirtækisins hafa tekið, hafi gengið milli starfsmanna í hópspjöllum á netinu. Sum myndskeiðin séu af viðkvæmum toga líkt og eitt sem sýnir viðskiptavin kviknakinn. Þá virðist eitt myndskeiðanna hafa verið tekið af bíl sjálfs Elons Musk, forstjóra Tesla.

Þetta kemur fram í ítarlegri frétt Reuters um málið. Þar er haft eftir fyrrverandi starfsmanni að myndskeið sem sýndi bílslys, þar sem Teslu var ekið á barn á hjóli, hafi gengið sem eldur í sinu um skrifstofu Tesla í Kaliforníu.

Þá segir að starfsmenn hafi deilt myndum af einstökum Lotus Esprit, sem búið er að breyta í kafbát. Áhugafólk um James Bond ætti að þekkja bílinn enda ók kappinn honum í kvikmyndinni the Spy Who Loved Me frá árinu 1977.

Þessi bíll, ef bíl skyldi kalla, er í eigu Elons Musk.RM uppboðshúsið

Svo virðist sem starfsmennirnir sem deildu myndum af bílnum hafi verið að njósna um eigin yfirmann. Elon Musk keypti bílinn nefnilega á uppboði árið 2013 fyrir tæplega eina milljón Bandaríkjadala.

Þá segir í frétt Reuters að Tesla fullyrði að myndavélum um borð í bifreiðum fyrirtækisins sé einungis ætlað að aðstoða við akstur og að friðhelgi einkalífs viðskiptavina sé fyrirtækinu mjög mikilvæg.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×