Sport

Gunnar stoltur af metum og skýtur á gagn­rýn­endur

Sindri Sverrisson skrifar
Bryan Barberena átti aldrei séns í Gunnar Nelson þegar þeir mættust á laugardagskvöld.
Bryan Barberena átti aldrei séns í Gunnar Nelson þegar þeir mættust á laugardagskvöld. Getty/Catherine Ivill

Bardagakappinn Gunnar Nelson getur státað sig af tveimur metum eftir nær fullkomna frammistöðu á UFC bardagakvöldinu í London um síðustu helgi.

Gunnar vann Bandaríkjamanninn Bryan Barberena strax í fyrstu lotu en Barberena varð að játa sig sigraðan þegar Gunnar náði honum í armlás nokkrum sekúndum fyrir lok lotunnar.

Þar með hefur Gunnar náð flestum sigrum með uppgjafartaki í sögu veltivigtarinnar í UFC, eða alls átta talsins. Hann komst upp fyrir Damian Maia og Chris Lytle sem báðir hafa unnið sjö bardaga með uppgjafartökum.

Gunnar benti á þetta á Twitter-síðu sinni og jafnframt á það að hann væri einnig efstur í veltivigtinni yfir umtalsverð högg sem hitta í mark, með yfir 60% hittni. Næstur á eftir honum er Matt Brown með 55,3% hittni.

Gunnar hefur fyrst og fremst getið sér orð sem afburðagóður glímumaður í gólfinu en bendir gagnrýnendum á það að högganýtingin sýni að hann geti svo sannarlega einnig barist standandi. „Kannski ekki bara gripamaður [e. grappler],“ skrifar Gunnar í frjálslegri þýðingu blaðamanns.

Gunnar tók sér ekki neitt frí eftir bardagann í London og var mættur í dagvinnuna sína í Mjölni á mánudaginn, þar sem hann ræddi við Stöð 2.

Frammistaða Gunnars á laugardaginn var valin besta frammistaða kvöldsins sem skilaði honum nokkrum aukamilljónum króna í vasann. Óljóst er hvenær og gegn hverjum næsti bardagi Gunnars verður en hann sér fyrir sér titilbardaga í nánustu framtíð.

„Ég myndi halda að annar svona sigur á móti sterkum andstæðingi og rétta hæpið þá gæti það verið nóg,“ sagði Gunnar.

MMA

Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.