Innlent

Óttast frekar jarða­kaup út­lendinga því þeir vilji „vera í friði“

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Kaup erlendra aðila á íslenskum jörðum valda mörgum hugarangri og óttast er að umræddar jarðir verði ekki lengur aðgengilegar almenningi.
Kaup erlendra aðila á íslenskum jörðum valda mörgum hugarangri og óttast er að umræddar jarðir verði ekki lengur aðgengilegar almenningi. GETTY/Ágúst Eiríksson/Bítið

Formaður Samút, samtaka útivistarfélaga á Íslandi, segir að fréttir af kaupum kanadísks auðjöfurs á jörðinni Horni sé ekkert einsdæmi. Það sé enn eitt dæmið sem falli undir ferðafrelsisbaráttu samtakanna. Hann segist frekar óttast kaup erlendra aðila á íslenskum jörðum því þeir loki frekar fyrir aðgengi fólks að jörðum sínum því þeir vilji vera í friði.

Á dögunum voru fréttir sagðar af kaupum ónefnds kanadísks auðkýfings á jörðinni Horni í Skorradal en á henni stendur hið tignarlega fjall Skessuhorn sem jafnframt er eitt þekktasta fjall Borgarfjarðar. Fréttablaðið sagði frá því á þriðjudaginn að kaupendurnir hefðu í febrúar fengið byggingarleyfi fyrir tveimur byggingum sem samanlagt telja sautján hundruð fermetra.

Sveinbjörn Halldórsson, formaður Samút, sagði í Bítinu á Bylgjunni í morgun segir þetta mál sé ekkert einsdæmi.

„Þetta tilheyrir og fellur undir það sem við köllum ferðafrelsisbaráttu sem er barátta sem við erum búin að standa í lengi og þetta er ekki eina málið sem er á borðinu hjá okkur. Þetta hefur verið þannig að þeir sem eiga nóg af peningum hafa verið að kaupa upp jarðir á Íslandi. Hjörleifshöfðamálið kom nú upp hérna á sínum tíma líka og svo hefur það verið að gerast að ríkir einstaklingar kaupi jarðir og vilja bara fá að vera í friði og þeir hafa verið að loka aðgengi að jörðunum, bæði fyrir gangandi, akandi, skíðandi, ríðandi og hvernig sem menn hafa verið að fara. Það er verið að loka aðgengi að vötnum og annað sem hefur verið óvinsælt.“

En ætti hið sama ekki líka að gilda um íslenska auðmenn sem kaupa upp jarðir?

„Þetta er ekki endilega bara útlendingar en við hræðumst mest útlendingana því þeir eru að kaupa jarðir til að fá að vera í friði. Dæmi eru um það að þeir hafi lokað jörðunum og eru bara fastir fyrir og það gengur rosalega illa því við höfum ákveðinn rétt hér Íslendingar sem heitir almannaréttur. Vandamálið við almannaréttinn er að hann er bundinn náttúruverndarlögum en eignarétturinn er bundinn í stjórnarskrá, hann er rétthærri,“ sagði formaður Samút í Bítinu í morgun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×