Sport

KA og Hamar bikarmeistarar í blaki

Smári Jökull Jónsson skrifar
KA fagnaði sigri í kvennaflokki.
KA fagnaði sigri í kvennaflokki. Vísir/Abela Nathans

KA og Hamar urðu í gær bikarmeistarar í blaki þegar úrslitaleikir Kjörísbikarsins fóru fram.

Úrslitaleikir Kjörísbikarsins í blaki fóru fram í gær en sannkölluð bikarhelgi hefur verið í gangi um helgina í Digranesi.

KA og HK mættust í úrslitum kvenna en HK vann sigur á Völsungi í undanúrslitum á meðan KA lagði Þrótt Fjarðabyggð. KA var ríkjandi bikarmeistari en liðið er í efsta sæti úrvalsdeildarinnar.

Úrslitaleikurinn byrjaði nokkuð jafnt en KA tók síðan frumkvæðið. Þær unnu fyrstu hrinuna 25-15 en höfðu mikla yfirburði í þriðju hrinunni sem þær unnu 25-8. Þriðja hrinan var jöfn en þar vann KA 25-23 og tryggði sér þar með bikarmeistaratitilinn.

Hamarsmenn unnu í karlaflokki.Vísir/Mummi Lú

Í karlaflokki mættust Hamar og Vestri en Vestramenn komust í úrslitaleikinn með því að vinna KA á meðan Hamarsmenn lögðu Aftureldingu. Hamar er í efsta sæti úrvalsdeildarinnar en Vestri í því fjórða og Hamarsmenn því sigurstranglegri aðilinn fyrir leikinn.

Vestramenn byrjuðu hins vegar af krafti. Þeir unnu fyrstu hrinuna 25-20 en Hamar svaraði fyrir sig í annarri lotu og unnu 25-19.

Í þriðju lotu sýndi lið Hamars styrk sinn og unnu 25-15 og síðan þá fjórðu 25-21 og þar með bikarmeistaratitilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×