Innlent

Aldrei meiri fjölgun íbúa

Kjartan Kjartansson skrifar
Um 63 prósent íbúa Íslands eru á Stór-Reykjavíkursvæðinu.
Um 63 prósent íbúa Íslands eru á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Vísir/Hanna

Íbúum á Íslandi fjölgaði um rúmlega 11.500 manns eða 3,1 prósent á milli ára í upphafi árs. Það er mesta fjölgun í sögu mannfjöldatalna á Íslandi sem ná aftur til fyrri hluta átjándu aldar.

Mannfjöldi á Íslandi var 387.758 1. janúar, 11.510 fleiri en 1. janúar árið 2022 samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Tölur um mannfjölda ná aftur til ársins 1734 og hefur íbúum landsins aldrei fjölgað jafnmikið á einu ári og í fyrra.

Karlar voru 199.826 en konur 187.800. Þau sem voru skráð kynsegin eða annað voru 132, 0,03 prósent mannfjöldans, og fjölgaði um 80,8 prósent á milli ára.

Hlutfallslega mesta fjölgunin var á Suðurnesjum þar sem íbúum fjölgaði um 6,7 prósent, 1.941 mann, á milli ára. Fjölgunin á Suðurlandi var einnig yfir landsmeðaltali, 4,2 prósent. Á Vesturlandi fjölgaði íbúum um 3,1 prósent en 2,8 prósent (6.651 mann) á höfuðborgarsvæðinu.

Fjölgunin var undir meðaltali á Vestfjörðum, 2,4 prósent, Norðurlandi eystra, tvö prósent, og Austurlandi, 1,8 prósent. Minnst fjölgaði íbúum á Norðurlandi vestra, aðeins um 0,4 prósent, alls 27 einstaklinga.

Meira en 240.000 manns á Stór-Reykjavíkursvæðinu

Íbúum fækkaði í átta sveitarfélögum af 64 í fyrra. Sveitarfélögunum sjálfum fækkaði um fimm. Í 29 sveitarfélögum voru íbúar færri en þúsund en í ellefu voru þeir fimm þúsund eða fleiri.

Reykjavík var fjölmennsta sveitarfélagið með 139.875 íbúa í fyrra. Árneshreppur á Ströndum var það fámennstasta með 47 íbúa.

Um 63 prósent íbúa landsins bjuggu á Stór-Reykjavíkursvæðinu, alls 242.995 manns. Svæðið er skilgreint sem samfelld byggð frá Hafnarfirði til Mosfellsbæjar.

Næst stærsta þéttbýlið var í Keflavík og Njarðvík þar sem 21.950 manns bjuggu og á Akureyri og nágrenni með 19.887 manns.

Í strjálbýli bjuggu 22.752 manns eða 5,9 prósent íbúa Íslands. Strjálbýli er skilgreint sem sveit eða byggðakjarni með færri en tvö hundruð íbúa.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×