Fótbolti

Cole Campbell skoraði í vítakeppni á móti PSG

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
William Cole Campbell kom inn á í lokin til að taka víti og afgreiddi það verkefni glæsilega.
William Cole Campbell kom inn á í lokin til að taka víti og afgreiddi það verkefni glæsilega. Skjámynd/Twitter

Íslenski unglingalandsliðsmaðurinn William Cole Campbell komst í gær áfram í átta liða úrslit Evrópukeppni unglingaliða þegar lið hans Borussia Dortmund sló út Paris Saint-Germain.

Nítján ára liða félaganna spila í UEFA Youth League eða UEFA keppni unglingaliða.

Úrslitin réðust í vítakeppni þar sem Dortmund nýtti allar fimm vítaspyrnur sínar en franska liðið klikkaði á sinni síðustu spyrnu.

Cole Campbell tók fjórðu spyrnu þýska liðsins og skoraði með góðu vinstri fótar skoti í bláhornið. Hann hafði komið inn á sem varamaður í uppbótatíma að því virtist til að taka vítaspyrnu í vítakeppninni.

Cole er sautján ára gamall og lék með FH og Breiðabliki áður en hann fór til Borussia Dortmund í júní í fyrra. Hann er því að spila upp fyrir sig með nítján ára liðinu.

Með sautján ára liði Dortmund hefur Cole skorað sex mörk og gefið fimm stoðsendingar í ellefu deildarleikjum í Vesturdeild Bundesligu U17 ára liða á þessu tímabili.

Cole náði að spila einn leik með FH og einn leik leik með Breiðabliki í Bestu deild karla í fyrrasumar áður en hann fór út til Þýskalands.

Dortmund mætir Hajduk Split í átta liða úrslitunum.

Hér fyrir neðan má sjá vítakeppnina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×