Sport

Mamma heims­met­hafans byrjaði aftur eftir 34 ár og setti næstum því met

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Foreldrar Armand Duplantis, Greg og Helena Duplantis, fylgjast með honum á Ólympíuleikunum í Tókýó þar sem hann vann gull.
Foreldrar Armand Duplantis, Greg og Helena Duplantis, fylgjast með honum á Ólympíuleikunum í Tókýó þar sem hann vann gull. Getty/Michael Kappeler

Armand Duplantis er besti stangarstökkvari heims og handhafi heimsmetsins innan og utanhúss. Þessi 23 ára Svíi hefur margbætt heimsmetið á síðustu árum.

Duplantis er algjör yfirburðamaður og hefur á síðustu árum unnið gull á Ólympíuleikum (2021), heimsmeistaramóti (2022) og Evrópumótum (2018 og 2022).

Afrek Armand Duplantis eru oft í fréttum enda hefur hann stokkið oftast allra yfir sex metra eða alls 54 sinnum.

Það vita hins vegar færri af afrekum móður hans sem átti athyglisverða endurkomu á dögunum.

Móðir hans er Helena Duplantis sem keppti á sínum tíma í sjöþraut en hún hefur þjálfað strákinn sinn undanfarin ár. Helena eignaðist hann árið 1999.

Helena ákvað að taka fram keppnisskóna á ný á dögunum eftir 34 ára bið og náði frábærum árangri á móti í Sollentuna.

Helena kastaði þá kúlunni 10,87 metra og var aðeins 31 sentimetra frá því að setja nýtt sænskt met í kúluvarpi 55 ára og yngri.

„Ég keppti síðast innanhúss á sænska meistaramótinu í Stockholms Stadion árið 1989 og þá notaði ég þrístökks aðhlaupið,“ sagði Helena Duplantis við friidrottaren.com.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.