Innlent

Miklu hættu­legra að vera heima í sófanum en að fara í sjósund

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Kristín Sigurðardóttir, slysa- og bráðalæknir og fyrirtækjaeigandi, segir sjósund holla og góða hreyfingu. Fólk verði þó að hlusta vel á líkamann enda sé allt gott í hófi.
Kristín Sigurðardóttir, slysa- og bráðalæknir og fyrirtækjaeigandi, segir sjósund holla og góða hreyfingu. Fólk verði þó að hlusta vel á líkamann enda sé allt gott í hófi. Vísir

Slysa- og bráðalæknir telur miklu hættulegra að hanga heima í sófanum í staðinn fyrir að fara út og hreyfa sig, til dæmis með því að skella sér í sjósund. Konum á miðjum aldri var ráðlagt að sleppa því að synda í köldu vatni í vikunni.

Breska blaðið Telegraph fjallaði nýlega um að miðaldra konur þyrftu að sýna ýtrustu varúð við sund í köldu vatni. Rætt var við konu á sextugsaldri sem hlotið hafði alvarleg lungnaveikindi eftir slíkar æfingar. Sú var í góðu formi, þaulvön sjósundi og hafði reglulega keppt í þríþraut.

Telegraph vísaði í grein í tímaritinu BMJ Case Reports, þar sem fram kemur að tiltekin tegund lungnabjúgs geti komið upp við sund. Samkvæmt greininni eru meiri líkur á veikindunum þegar synt er af ákefð og þá sérstaklega í köldu vatni.

Keyrir streitukerfið upp

Kristín Sigurðardóttir, slysa- og bráðalæknir og fyrirtækjaeigandi, ræddi málið við Reykjavík síðdegis fyrr í dag. Hún segist reglulega dýfa sér í kaldan sjó og lætur vel af. Kristín segir slíka hreyfingu af hinu góða en hins vegar verði ávallt að hlusta á líkamann.

„Þetta keyrir streitukerfið svolítið upp fyrst og svo hjálpar fólki að fara í endurheimt í kjölfarið. Í endurheimt er svo mikið gróandi, ónæmiskerfið er virkt og mikil vellíðan og alls konar sem gerist í endurheimtinni. En það er þannig í lífinu að ef við reynum aldrei á kerfin okkar […] Þá erum við náttúrulega ekki að ræsa þessi kerfi okkar, eða efla kerfin okkar. Þannig að hæfileg ræsing, hæfileg streita, hæfilegt álag er mjög hollt fyrir okkur – og lífsnauðsynlegt.“

„Við þurfum að ræsa kerfin okkar“

Kristín leggur áherslu á að fólk eigi sjálfsögðu ekki að ofgera sér. Allt sé gott í hófi og fólk eigi að hlusta á líkamann. Hún segir að greinin, sem fjallað hefur verið um, benda til þess að um eitt einstakt tilfelli hafi verið að ræða. Skoða verði hlutina í heild enda geti utanaðkomandi þættir, til að mynda heilsa einstaklingsins, skipt máli. Taka þurfi slíkum hlutum með fyrirvara.

„Ég tel að það sé miklu hættulegra að vera heima í sófanum heldur en að fara út og taka þátt í lífinu og hreyfa sig og vera til, lifa lífinu lifandi. Við þurfum að ræsa kerfin okkar en við eigum að vera í tengslum við okkur sjálf og finna hvernig okkur líður; hvort að þetta er að gera okkur gott eða hvort það er komið nóg.“

Hér er aðeins stiklað á stóru en hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni hér að neðan.


Tengdar fréttir

„Þetta var alveg epískt sjónar­spil“

Sjósund er vinsælt áhugamál hér á landi og margir sem stinga sér til sunds í sjó sér til yndisauka. Hvalaskoðun er þá sömuleiðis vinsæl, einkum hjá ferðamönnum, og hvalaskoðunarbátar gerðir út víða á landinu. Þó er afar sjaldgæft að þessu tvennu sé blandað saman. Sú var þó raunin í Arnarfirði á Vestfjörðum á laugardag, þegar tveir menn syntu um fjörðinn með stærðarinnar hnúfubökum. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×