Sport

Guðrún Arnardóttir tekin inn í Heiðurshöll ÍSÍ

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Guðrún Arnardóttir er 24. íþróttamaðurinn til að vera tekin inn í Heiðurshöll ÍSÍ.
Guðrún Arnardóttir er 24. íþróttamaðurinn til að vera tekin inn í Heiðurshöll ÍSÍ. Vísir/Hulda Margrét

Frjálsíþróttakonan Guðrún Arnardóttir var í kvöld tekin inn í Heiðurshöll Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Guðrún er 24. manneskjan sem tekin er inn í höllina.

Guðrún komst fyrst íslenskra hlaupara í úrslit á Ólympíuleikum í grindahlaupi árið 2000 og er hún fjórða konan sem tekin er einn í höllina. Áður hafa frjálsíþróttakonan Vala Flosadóttir, sund­kon­an Krist­ín Rós Há­kon­ar­dótt­ir og hand­knatt­leiks­kon­an Sig­ríður Sig­urðardótt­ir verið teknar inn í höllina.

Guðrún er fædd árið 1971 og keppti fyrir Ármann. Hún var framarlega í flokki í heiminum í 400 metra grindahlaupi og árið 2000 hafnaði hún í sjöunda sæti á Ólympíuleikunum í Sydney. Að þeim leikum loknum lagði hún hlaupaskóna á hilluna, 29 ára gömul.

Guðrún á enn Íslandsmetið í 400 metra grindahlaupi, en hún setti það á stigamóti Alþjóða frjálsíþróttasambandsins í London í ágúst árið 2000 þegar hún hljóp á 54, 37 sekúndum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×