Tindastóll mætti vestur í bæ á fimmtudagskvöld og vann stórsigur á lánlausu liði KR. Freimanis spilaði aðeins rúmar tíu mínútur og skoraði fjögur stig. Virðist það hafa verið dropinn sem fyllti mælinn.
Þessi 31 árs gamli Letti skoraði að meðaltali 8.6 stig í leik ásamt því að taka 6.3 fráköst og gefa 1.6 stoðsendingar. Var það ekki nóg til að halda honum í Vesturbænum og hefur hann nú verið sendur heim.
Segja má að KR hafi ekki dregið vel í hinu svokallaða útlendingalottói í vetur en Freimanis er fjórði útlendingurinn sem er látinn fara frá KR á leiktíðinni:
- Philip Jalalpoor skrifaði undir eins mánaðar samning í október og var látinn fara að honum loknum.
- Michael Mallory samdi við liðið fyrir mót en var ekki heill heilsu og yfirgaf því Vesturbæinn.
- Saimon Sutt entist einnig stutt í Vesturbænum en hann samdi í september en var sendur heim í nóvember.
Þá herma heimildir Vísis að Jordan Semple – sem ku ekki vera vel liðinn af samherjum sínum – og EC Matthews gætu verið á leið frá félaginu fyrr heldur en síðar.