Sport

Keppir bara á opna franska meistara­mótinu vegna kærustunnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nick Kyrgios með kærstu sinni Costeen Hatzi eftir sigur á Opna ástralska meistaramótinu í ár.
Nick Kyrgios með kærstu sinni Costeen Hatzi eftir sigur á Opna ástralska meistaramótinu í ár. Getty/Quinn Rooney

Ástralski tenniskappinn Nick Kyrgios hefur oft talað illa um opna franska risamótið í tennis og kallað það versta risarmótið. Á næsta ári verður Kyrgios þó meðal keppenda og Frakkar geta þakkað kærustunni hans fyrir það.

„Ég hefði frekar viljað vera heima,“ sagði Nick Kyrgios í samtali við Eurosport. Hann hefur aldrei komist lengra á opna franska en í þriðju umferð.

Kyrgios er nú í 22. sæti á heimslistanum í tennis en hefur ekki keppt á opna franska risamótinu í fimm ár. Kærasta hans er hin 21 árs gamla Costeen Hatzi og hún setti pressu á sinn mann.

„Hana langar að sjá París. Það er ástæðan fyrir því að ég keppi á opna franska. Það er líka gott fyrir mig að geta náð mér í aðeins meiri pening þó ég hefði kosið að halda mig heima,“ sagði Kyrgios.

Costeen Hatzi og Nick Kyrgios hafa verið saman frá því í lok ársins 2021 en hann er sex árum eldri en hún.

Besti árangur Kyrgios á þessu ári var á Wimbledon mótinu þar sem hann komst í úrslit en tapaði fyrir Novak Djokovic.

Opna franska risamótið fer fram 22. maí til 11. júní á næsta ári og vonandi fyrir Ástralann verða þau enn saman þá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×