Argentína tryggði sér sæti í undanúrslitum með sigri í vítaspyrnukeppni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Lautaro Martinez tryggði Argentínu sigur í vítaspyrnukeppninni.
Lautaro Martinez tryggði Argentínu sigur í vítaspyrnukeppninni. ANP via Getty Images

Argentína er á leið í undanúrslit eftir sigur gegn Hollendingum í vítaspyrnukeppni. Argentína náði tveggja marka forystu í venjulegum leiktíma, en Hollendingar gáfust ekki upp og náðu að knýja fram framlengingu og að lokum vítaspyrnukeppni.

Nokkuð jafnræði ríkti á með liðunum stærstan hluta fyrri hálfleiks. Hollendingar héldu boltanum oft og tíðum vel, en það gerðu Argentínumenn sömuleiðis.

Það þurfti eitthvað sérstakt til að brjóta ísinn og það fengu áhorfendur svo sannarlega að sjá þegar um tíu mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Lionel Messi fékk þá boltann rétt fyrir utan vítateig og náði að finna Nahuel Molina með ótrúlegri stungusendingu. Bakvörðurinn gerði allt rétt og laumaði boltanum fram hjá Andries Noppert í marki Hollendinga, 1-0.

Þetta reyndist eina mark fyrri hálfleiksins og staðan því 1-0, Argentínumönnum í vil, þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Vandræði Hollendinga urðu svo ekki minni þegar Denzel Dumfries gerðist sekur um klaufalegt brot á Marcos Acuña inni í vítateig og vítaspyrna dæmd. Lionel Messi var að sjálfsögðu mættur á punktinn og skoraði af miklu öryggi þegar rúmlega stundarfjórðungur var til leiksloka.

Hollendingar fengu þó líflínu á 83. mínútu leiksins þegar Wout Weghorst skallaði boltann í netið og staðan var 2-1 að loknum venjulegum leiktíma. 

Hollendingar nýttu þó uppbótartímann til hins ýtrasta og Wout Weghorst var aftur á ferðinni á elleftu mínútu uppbótartíma þegar hann batt endahnútinn á vel útfærða aukaspyrnu og jafnaði metin og tryggði Hollendingum um leið framlengingu.

Argentínska liðið var mun sterkara í framlengingunni og í raun ótrúlegt að liðið hafi ekki náð að skora. Enzo Fernandez átti til að mynda skot í stöng, en inn vildi boltinn ekki og því þurfti að grípa til framlengingar til að skera úr um sigurvegara.

Virgil van Dijk var fyrstur á punktinn fyrir Hollendinga, en Emiliano Martinez varði virkilega vel frá honum. Lionel Messi fékk þá tækifæri til að koma Argentínumönnum í forystu, sem og hann svo gerði.

Steven Berghuis var næstur í röðinni hjá Hollendingum, en aftur var Martinez vandanum vaxinn áður en Leandro Paredes kom Argentínumönnum í tveggja marka forystu.

Teun Koopmeiners skoraði svo úr þriðju spyrnu Hollendinga, en það gerði Gonzalo Montiel einnig fyrir Argentínumenn og liðið því aftur með tveggja marka forystu.

Wout Weghorst hélt svo vonum Hollendinga á lífi með öruggu víti, áður en Enzo Fernandez skaut fram hjá og von Hollendinga styrktist.

Luuk de Jong skoraði svo úr fimmtu spyrnu Hollendinga og sá til þess að Lautaro Martinez þurfti að skora til að tryggja Argentínu sigurinn. Martinez sendi Noppert í rangt horn og Argentína er á leið í undanúrslit á kostnað Hollendinga. Argentína mun því mæta Króötum í undanúrslitum, en Króatía hafði betur gegn Brasilíu fyrr í kvöld.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.