Innlent

Segir mikla á­nægju með heima­stjórnirnar í Múla­þingi

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar Múlaþings, sem er mjög ánægð með störf heimastjórnanna í sveitarfélaginu.
Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar Múlaþings, sem er mjög ánægð með störf heimastjórnanna í sveitarfélaginu. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Forseti sveitarstjórnar Múlaþings segir að hinar svokölluðu heimastjórnir sveitarfélagsins hafa reynst einstaklega vel frá því að þeim var komið á fót. Þær eru nefndir í fjórum byggðakjörnum innan sveitarfélagsins og er markmið þeirra að tryggja áhrif og aðkomu heimamanna á hverjum stað að ýmsum ákvörðunum sveitarfélagsins, sem snúa að þeirra nærumhverfi.

Heimastjórnir eru fastanefndir innan sveitarfélagsins Múlaþings og starfa í umboði sveitarstjórnar. Í hverri heimastjórn eru þrír fulltrúar og með hverri heimastjórn starfar starfsmaður sem er fulltrúi sveitarstjóra á viðkomandi svæði. Fjórar heimastjórnir eru starfandi, eða heimastjórn Borgarfjarðar, heimastjórn Djúpavogs, heimastjórn Fljótsdalshéraðs og heimastjórn Seyðisfjarðar.

Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar Múlaþings, segir heimastjórnirnar frábært tæki, sem part af stjórnsýslu sveitarfélagsins.

„Ég held að það sé svolítið flókið að reka svona víðfeðmt sveitarfélag en við erum að reyna að takast á við það með þessum heimastjórnum, sem við erum með. Heimastjórnirnar eru þá kjörnar af tveimur fulltrúum af stöðunum og einum pólitískum fulltrúa, sem er þá formaður nefndarinnar og hefur beina tengingu við sveitarstjórn. Það leiðir bara til þess að þau málefni, sem eru á stöðunum fá bara svigrúm og við vitum að oft í smærri samfélögum þá eru stóru málin litlu málin,” segir Jónína.

Jónína segir að sveitarstjórn vilji að samfélagið vaxi og dafni og tekist sé á við þær áskoranir, sem koma upp hverju sinni.

„Og heimastjórnirnar hafa leyst það ofboðslega vel hér og þær hafa reynst okkur gríðarlega mikilvægar," bætir hún við.

Fjórari heimastjórnir eru starfandi í Múlaþingi, sem allar eru að gera það gott og standa sig vel.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Heimastjórnirnar hafa reynst einstaklega vel í Múlaþingi.

„ Já, heimastjórnir eru mjög magnað fyrirbæri og hafa svolítið ritstjórnarfrelsi. Það er töluvert mikið í þeirra höndum hversu mikið þau gera, bæði þeim verkefnum, sem þeim er falið og þeim verkefnum, sem þau sjálf sækja til samfélagsins,” segir Jónína.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.