Erlent

Snowden sór Rúss­landi hollustu­eið

Kjartan Kjartansson skrifar
Snowden talar í gegnum fjarfundarbúnað á verðlaunahátíð árið 2019.
Snowden talar í gegnum fjarfundarbúnað á verðlaunahátíð árið 2019. Vísir/EPA

Edward Snowden, sem ljóstraði um um stórfelldar njósnir bandarísku þjóðaröryggisstofnunarinnar, sór Rússlandi hollustueið og fékk rússneskt vegabréf í dag, að sögn lögmanns hans. Rússar veittu Snowden hæli eftir að hann flúði Bandaríkin í kjölfar uppljóstrananna.

Anatolíj Kútsjerana, lögmaður Snowden, sagði ríkisfréttastofunni Interfax að rússneski ríkisborgararétturinn hefði mikla þýðingu fyrir skjólstæðing sinn þar sem nú væri ekki lengur hægt að framselja hann til Bandaríkjanna. Snowden er eftirlýstur í Bandaríkjunum fyrir njósnir en hann lítur sjálfur á sig sem uppljóstrara.

Washington Post segir að það sé venja að nýir ríkisborgarar sverji Rússlandi hollustueið. Með eiðnum hét Snowden meðal annars að vera trúr Rússland og virða menningu þess, sögu og hefðir. Kútsjerena sagði að Lindsay Mills, eiginkona Snowden, sé með umsókn um ríkisborgararétt til meðferðar.

Vladímír Pútín forseti veitti Snowden ríkisborgararétt ásamt hópi annarra útlendinga í september. Hann hefur áður sagt að það sem Snowden gerði í heimalandi sínu hafi verið rangt en að hann væri ekki svikari þar sem hann hafi ekki svikið hagsmuni landsins.

Snowden tísti í september að hann og fjölskylda hans væri fegin að fá stöðugleika í líf sitt og óskaði eftir að fá frið. Þau Mills eiga tvo syni.

Gögn sem Snowden lak til blaðamanna Washington Post og The Guardian innan úr þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna (NSA) árið 2013 sýndu svart á hvítu að stofnunin hefði staðið fyrir stórfelldum njósnum um óbreytta borgara sem voru síðar úrskurðaðar ólöglegar.

Snowden flúði Bandaríkin til að forðast saksókn og var veitt hæli í Rússlandi. Hann fékk varanlegt dvalarleyfi þar árið 2020. Sjálfur sagðist hann vilja hafa tvöfalt ríkisfang til þess að koma í veg fyrir að fjölskyldunni yrði stíað í sundur.

Hann hefur látið tiltölulega lítið fyrir sér fara í Rússlandi. Þrátt fyrir að hann hafi gagnrýnt mannréttindabrot rússneskra stjórnvalda í gegnum tíðina hefur hann ekki tjáð sig um innrás þeirra í Úkraínu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×