Lífið

Orange Is the New Black-leikari látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Leikararnir Brad William Henke og Taryn Manning á SAG-verðlaunahátíðinni árið 2017.
Leikararnir Brad William Henke og Taryn Manning á SAG-verðlaunahátíðinni árið 2017. Getty

Bandaríski leikarinn og fótboltaspilarinn Brad William Henke, sem þekktastur er fyrir hlutverk sitt í þáttunum Orange Is the New Black, er látinn, 56 ára að aldri.

Bandarískir fjölmiðlar greindu frá þessu í nótt en talsmaður leikarans staðfestir andlátið. Ekki liggur fyrir hvað hafi dregið Henke til dauða.

Henke fór með hlutverk fangavarðarins Desi Picatella í 26 þáttum af Orange Is the New Black. Henke og aðrir leikarar þáttanna unnu til Screen Actors Guild-verðlaunanna árið 2017.

Auk þess að birtast í Orange Is the New Black fór hann einnig meðal annars með hlutverk í fyrstu þáttaröð Dexter.

Áður en hann hellti sér út í leiklistina spilaði Henke með liði Arizona-háskóla í amerískum fótbolta. Þá var hann á mála hjá NFL-liðinu New York Giants en lék þó aldrei leik með þeim vegna meiðsla. Þá gekk hann til liðs við Denver Broncos þar sem hann spilaði meðal annars um Ofurskálina árið 1990.

Hann hætti í fótboltanum árið 1994 vegna þrálátra meiðsla og hóf þá feril sinn sem leikari.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×