Erlent

For­seti Suður-Afríku í bobba vegna spillingar­á­sakana

Kjartan Kjartansson skrifar
Cyril Ramaphosa, forseti Suður-Afríku, þegar hann bar af sér sakir um spillingu í þinginu í september.
Cyril Ramaphosa, forseti Suður-Afríku, þegar hann bar af sér sakir um spillingu í þinginu í september. AP/Nardus Engelbrecht

Kallað var eftir afsögn Cyrils Ramaphosa, forseta Suður-Afríku, eftir að þingnefnd komst að þeirri niðurstöðu að hann hafi mögulega framið lögbrot í tengslum við fyrirtæki í eigu hans. Forsetinn hafnar ásökununum.

Arthur Fraser, fyrrverandi yfirmaður suðurafrísku leyniþjónustunnar, sakaði Ramaphosa um að hafa reynt að leyna því að háum fjárhæðum af földu fé hefði verið stolið af búgarði hans árið 2020. Féð hafi meðal annars verið falið í húsgögnum. Forsetinn hefði gerst sekur um peningaþvætti og brot á gjaldeyrislögum.

Þingnefnd sem rannsakaði ásakanirnar skilaði skýrslu sinni í dag en í henni var varpað fram spurningum um uppruna fjárins og hvers vegna Ramaphosa hefði ekki gefið það upp. Hagsmunaárekstrar hafi mögulega verið á milli viðskiptaumsvifa og opinberra starfa forsetans. Hann kunni að hafa brotið lög gegn spillingu, að sögn AP-fréttatstofunnar.

Ramaphosa heldur því fram að féð hafi verið ágóða af sölu dýra á búgarðinum. Þrátt fyrir það hefur stjórnarandstaðan og andstæðingar hans innan Afríska þjóðarráðsins (ANC) krafist þess að segi af sér vegna málsins.

Framkvæmdastjórn ANC ætlar að funda um málið í kvöld og eru örlög forsetans sögð geta ráðist þar. Ramaphosa sækist eftir endurkjöri sem flokksleiðtogi á landsfundi í aðdraganda forsetakosninga sem fara fram árið 2024.

Skýrslan verður rædd á suðurafríska þinginu á þriðjudag. Þingheimur gæti mögulega greitt atkvæði um að kæra forsetann fyrir embættisbrot.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×