Erlent

Stefnir í tveggja og hálfrar gráðu hlýnun á meðan ríki draga lappirnar

Kjartan Kjartansson skrifar
Rústir húss sem eyðilagðist þegar fellibylurinn Ian gekk yfir Flórída í Bandaríkjunum fyrr í þessum mánuði. Auknar veðuröfgar eru einn af fylgifiskum hnattrænnar hlýnunar af völdum manna.
Rústir húss sem eyðilagðist þegar fellibylurinn Ian gekk yfir Flórída í Bandaríkjunum fyrr í þessum mánuði. Auknar veðuröfgar eru einn af fylgifiskum hnattrænnar hlýnunar af völdum manna. AP/Jay Reeves

Útlit er fyrir að hnattræn hlýnun nái tveimur og hálfri gráðu fyrir lok aldarinnar ef ríki heims auka ekki metnað sinn í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Það er heilli gráðu meira en stefnt er að með Parísarsamkomulaginu til þess að forðast verstu afleiðingar loftslagsbreytinga.

Í skýrslu loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna er áætlað að losun mannkynsins aukist um 10,6% á milli áranna 2010 og 2030 sem er engu að síður nokkuð minna en spá frá því í fyrra sem hljóðaði upp á 13,7% aukningu. Það er víðsfjarri þeim 45% samdrætti sem vísindamenn segja að þurfi að nást fyrir lok áratugsins ef loftslagsmarkmiðin eiga að halda.

Áætlun nefndarinnar um tveggja og hálfrar gráðu hlýnun byggir á núverandi landsmarkmiðum ríkja um samdrátt í losun. Hún er þannig háð því að ríkin standi við þau. Parísarsamkomulagið gerir ráð fyrir því að ríki uppfæri reglulega landsmarkmiðin og geri þau háleitari með tímanum.

„Við erum enn hvergi nærri því umfangi og hraða samdráttar í losun sem við þurfum til þess að halda hlýnun við eina og hálfa gráðu. Til þess að halda þessu markmiði á lífi verða ríkisstjórnir heims að efla aðgerðaáætlanir sínar í loftslagsmálum strax og framfylgja þeim á næstu átta árunum,“ segir Simon Stiell, framkvæmdastjóri rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar.

Næsta stóra loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna verður haldin í Sharm el-Sheikh í Egyptalandi í næsta mánuði. Þar er búist við því að ríki reyni að leggja fram metnaðarfyllri aðgerðir til þess að takmarka hnattræna hlýnun.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×