Erlent

Webb endurgerði frægustu mynd Hubble

Kjartan Kjartansson skrifar
Stöplar sköpunarinnar eins og þeir komu fyrir sjónir James Webb-geimsjónaukans.
Stöplar sköpunarinnar eins og þeir komu fyrir sjónir James Webb-geimsjónaukans. NASA, ESA, CSA, STScI; J. DePasquale, A. Koekemoer, A. Pagan (ST

Hluti Arnarþokunnar sem hlaut nafnið Stöplar sköpunarinnar þegar Hubble-geimsjónaukinn gerði hann frægan fyrir meira en aldarfjórðungi er skarpari en nokkru sinni fyrr á mynd sem James Webb-geimsjónaukinn, arftaki Hubble, náði.

Mynd Hubble af Stöplunum vakti heimsathygli þegar hún var fyrst birt árið 1995. Þeir eru hlutfallslega litlir angar af Arnarþokunni í um 6.500 ljósara fjarlægð frá jörðinni og voru kenndir við sköpun vegna þess að í gasskýinu eru að myndast nýjar stjörnur og sólkerfi. Stöplarnir eru engu að síður risavaxnir, fleiri ljósár að lengd, og eru upplýstir af sterku útfjólubláu ljósi sem tröllvaxnar stjörnur í nærliggjandi stjörnuþyrpingu gefa frá sér, að því er segir í grein á Stjörnufræðivefnum.

Geimstofnanirnar þrjár sem standa að James Webb-sjónaukanum birtu mynd hans af Stöplum sköpunarinnar í dag. Ólíkt Hubble sem er fyrst og fremst næmur fyrir sýnilegu ljósi drakk James Webb í sig nærinnrautt ljós stjörnuþokunnar.

Á henni sést aragrúi stjarna innan um hálfgegnsætt gas og ryk stöplanna. Þar sjást meðal annars rauðleitar frumstjörnur þar sem gasið hefur þést nægilega undan eigin þyngdarkrafti til þess að það byrji að hitna og skína.

Í tilkynningu á vef evrópsku geimstofnunarinnar ESA kemur fram að nýja myndin muni hjálpa stjörnufræðingum að fága líkön sín um stjörnumyndun þar sem þeir geta nú talið stjörnurnar og mælt magn gass og ryks með meiri nákvæmni en áður.

Stöplar sköpunarinnar í Arnarþokunni, ein frægasta ljósmynd Hubble.VÍSIR/ESA



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×