Innlent

Ríkið þurfi að fylgjast betur með með­ferðar­aðilum

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Tryggvi Guðjón Ingason formaður Sálfræðingafélags Íslands segir almenning bera of mikla ábyrgð. 
Tryggvi Guðjón Ingason formaður Sálfræðingafélags Íslands segir almenning bera of mikla ábyrgð.  Vísir/Ívar Fannar

Formaður Sálfræðingafélags Íslands kallar eftir því að stjórnvöld setji skýrari reglur um störf meðferðaraðila sem eru ekki heilbrigðisstarfsmenn. Ábyrgðin eigi ekki að liggja á herðum almennings, eins og hún gerir nú.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær var greint frá því að Jón Sigurður Karlsson, sem hefur starfað sem klínískur sálfræðingur í áraraðir, sinni enn störfum sálfræðings þrátt fyrir að hafa misst starfsleyfið. Embætti landlæknis hefur borist fjöldi kvartana vegna þessa en skjólstæðingar hans, sem fréttastofa hefur rætt við, segjast hafa greitt honum fyrir greiningar sem eru ekki teknar gildar af geðlæknum.

Jón sagði í samtali við fréttastofu í gær að hann hafi veitt skjólstæðingum ráðgjöf, sem markþjálfi en ekki sem sálfræðingur. Á heimasíðu Jóns kemur þó ekkert fram sem bendir til að hann hafi ekki starfsleyfi sem sálfræðingur. Þar kemur fram að hann hafi starfað sem klínískur sálfræðingur í áratugi og vinni við ýmis konar greiningarvinnu. Þá er hann skráður sem sálfræðingur á já.is.

Vegna þess að Jón er ekki með starfsleyfi heyrir það ekki undir eftirlit embættis landlæknis.

„Þegar fólk er ekki heilbrigðisstarfsfólk en er að veita þjónustu er enginn sem er með eftirlit með þeim,“ segir Tryggvi Guðjón Ingason formaður Sálfræðingafélags Íslands. 

„Og fólk veit ekki hvert það á að snúa sér ef það kemur í ljós að þjónustan er ekki það sem þau voru búin að vonast eftir.

Auka þurfi eftirlit með þeim sem auglýsi sig sem meðferðaraðila og veiti slíka þjónustu.

Í málum eins og þessu, er ábyrgðin of mikil á einstaklingum?

„Já, ég myndi telja það. Það er of mikil ábyrgð sett á almenning að vera vakandi fyrir því hvort að viðkomandi sé heilbrigðisstarfsmaður eða ekki. Ég tel að ríkið þurfi að koma þar sterkara inn, til að hjálpa almenningi og upplýsa hann.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×