Sport

Í lífstíðarbann fyrir að hagræða úrslitum

Valur Páll Eiríksson skrifar
Close-Up Of Tennis Racket And Ball On Court During Sunset
Vísir/Getty

Sílemaðurinn Sebastián Rivera, fyrrum tennismaður og nú þjálfari, hefur verið dæmdur í lífstíðarbann frá íþróttinni. Hann var fundinn sekur um að hafa hagrætt úrslitum í 64 tennisleikjum.

Alþjóðlega heilinda samtökin í tennis (International Tennis Integrity Agency) staðfesti að um væri að ræða hæsta fjölda leikja sem einn aðili hefði verið fundinn sekur um að hagræða. Þá hafi hinn 36 ára gamli Rivera ekki viljað taka þátt í rannsóknarferlinu. Hann var sektaður um 250 þúsund dali, tæplega 36 milljónir króna.

Samkvæmt dómnum mun hann fá varanlegt bann frá því að þjálfa, spila, eða mæta á nokkurn tennisviðburð sem skipulagður er af alþjóðlegum tennisyfirvöldum.

Rivera var fundinn sekur um þónokkur brot á reglum. Hann stýrði öðrum í veðmálum á leiki, reyndi að stýra úrslitum leikja, tók við peningagreiðslum til að hafa neikvæð áhrif á frammistöðu leikmanns og bauð peningagreiðslur til að hafa áhrif á frammistöðu leikmanns.

Tennis er á meðal íþrótta sem er hvað veikust fyrir áhrifum hagræðingar, sérstaklega á lægri stigum þar sem laun leikmanna eru minni. Vegna skorts á rannsóknum og flækjustiginu sem fylgir vandamálinu er þó erfitt að segja til um hversu stórt vandamálið er.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.