Erlent

Raisi hætti við við­talið eftir að Aman­pour neitaði að bera höfuð­klút

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Forsetinn var staddur í New York vegna aðalfundar Sameinuðu þjóðanna. Myndin er samsett.
Forsetinn var staddur í New York vegna aðalfundar Sameinuðu þjóðanna. Myndin er samsett. Getty/Anna Moneymaker, NurPhoto

Forseti Írans, Ebrahim Raisi neitaði að mæta í viðtal við fréttakonu CNN, Christiane Amanpour vegna þess að hún neitaði að bera höfuðklút á meðan á viðtalinu stæði. 

Þetta gerist á meðan mikil mótmæli geysa í Íran í kjölfar þess að kúrdísk kona er sögð hafa verið myrt í haldi lögreglu. Hún hafi verið handtekin fyrir það að vera ekki klædd samkvæmt reglum stjórnvalda, hún hafi ekki borið höfuðklút sinn á viðeigandi máta.

Viðtalið Amanpour við Raisi átti að fara fram í New York borg og hefði verið það fyrsta sem forsetinn hefði veitt í Bandaríkjunum.

Amanpour segir hafa staðið til að tala við forsetann um kjarnorkusamkomulagið, stuðning Írans við Rússa vegna innrásarinnar í Úkraínu og mannréttindabrot. Starfslið forsetans hafi vitað hver umræðuefni viðtalsins yrðu. Hún greinir frá þessu hjá CNN.

Hún segist aldrei hafa verið beðin um það að bera höfuðklút þegar hún hafi tekið viðtal við forseta Íran, hvort sem það hafi verið í Íran eða annars staðar en Amanpour segist hafa tekið viðtal við alla forseta Íran frá 1995.

Eftir mikinn undirbúning fyrir viðtalið hafi aðstoðarmaður forsetans nálgast hana og beðið hana um að setja upp höfuðklút á meðan viðtalinu stæði en beiðnin hafi komið fjörutíu mínútum eftir að viðtalið hafi átt að hefjast.

„Ég held, ef ég ætti að segja hvernig ég les aðstæðurnar, að hann hafi ekki viljað láta sjá sig með kvenmanni án höfuðklútar á þessu augnabliki. Annað hvort vegna þess að hann segir þetta vera trúarlegan mánuð eða vegna þess að fólk myndi segja, af hverju er hann að tala við erlendan fréttamann án höfuðklútar á meðan þeir ráðast nú af hörku gegn ungum konum í Íran sem bera slæðurnar ekki,“ segir Amanpour.

Amanpour segist hafa neitað beiðninni kurteisislega og í kjölfarið hafi forsetinn hætt við viðtalið.


Tengdar fréttir

Að minnsta kosti níu látnir í mót­mælunum í Íran

Ekkert lát er á mótmælunum í Íran en mótmælendur kveiktu í lögreglustöðvum og bílum í höfuðborginni og öðrum borgum í dag. Minnst níu eru sagðir hafa látist eftir að mótmælin brutust út um helgina og hefur ríkisstjórnin lokað á samfélagsmiðla til að reyna að koma í veg fyrir að mótmælendur nái að tala sig saman.

Konur brenna slæður sínar í Íran

Íranskar konur hafa undanfarin fimm kvöld mótmælt hijab-lögum landsins eftir að 22 ára gömul kona lést í haldi lögreglu. Hún var handtekin fyrir að nota ekki hijab-slæðu á almannafæri en lést degi síðar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×