Innlent

Vilja takmarka rjúpnaveiðina við 26 þúsund fugla eða sex á mann

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Rjúpa
Rjúpa

Náttúrufræðistofnun Íslands mælist til þess að ekki verði veiddar fleiri rjúpur í ár en 26 þúsund fuglar. Þetta jafngildir sex rjúpum á hvern veiðimann.

Í tilkynningu á vef stofnunarinnar segir að í aðalatriðum hafi talningar síðasta vor sýnt fjölgun rjúpna á nær öllum talningarsvæðum en til lengri tíma litið hafi rjúpnastofninn hnignað. Sé viðmiðið síðustu 20 ár eða svo sé stofninn yfir meðallagi en undir meðallagi samanborið við síðustu 60 ár.

Náttúrufræðistofnun segir mælingar á viðkomu á þessu ári hafi leitt í ljós viðkomubrest á Norðausturlandi og lélega viðkomu á Vesturlandi. Afföll á Norðausturlandi séu orðin það mikil að óvíst sé að uppsveiflan í stofnstærð 2021 til 2022 haldi áfram.

Veiðistofn rjúpunnar er metinn 297 þúsund fuglar. Ráðlögð veiði upp á 26 þúsund fugla þýðir að hver veiðimaður má skjóta sex fugla.

„Stærð veiðistofns rjúpu haustið 2022 er á pari við fjögur lélegustu árin frá upphafi mælinga 1995. Rjúpan er lykiltegund í fæðuvefnum og m.a. forsenda fyrir tilvist fálka. Hún er á Válista sem tegund í yfirvofandi hættu. Í ljósi þessa alls leggur Náttúrufræðistofnun mikla áherslu á að hvergi verði slakað á í þeirra viðleitni að draga sem mest úr heildarafföllum rjúpunnar og afli verði ekki umfram um 9% af veiðistofni,“ segir í tilkynningunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×