Erlent

Meintum nauðgara sleppt úr haldi vegna diplómatafriðhelgi

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Oliha var sleppt úr haldi lögreglu eftir að hann sýndi fram á að hann væri diplómati.
Oliha var sleppt úr haldi lögreglu eftir að hann sýndi fram á að hann væri diplómati. Getty/Aurora Samperio

Diplómata hjá Sameinuðu þjóðunum í New York borg í Bandaríkjunum, sem hefur verið sakaður um nauðgun, hefur verið sleppt úr haldi lögreglu vegna diplómatafriðhelgi. 

Hinn 46 ára gamli Charles Oliha hefur verið kærður fyrir nauðgun af nágranna sínum en þar sem hann er diplómati hjá Sameinuðu þjóðunum á vegum Suður-Súdan hafa lögregluyfirvöld í New York borg sleppthonum úr haldi. Þetta staðfestir lögreglan í New York í samtali við New York Daily News. 

Nágrannakona Oliha leitaði til lögreglu klukkan ellefu að staðartíma á sunnudagskvöld og sakaði Oliha um að hafa ruðst inn á heimili sitt og nauðgað sér í tvígang. Konan segir að atvikið hafi átt sér stað fyrr á sunnudginn. Oliha, sem er nágranni hennar, hafi elt hana að íbúðinni hennar, ruðst inn á eftir henni og brotið á henni.

Að sögn lögreglu leitaði konan til hennar eftir að vinur hennar hvatti hana til að tilkynna málið. Konan hafi þá leitað til New York-Presbyterian sjúkrahússins í Washington Hights hverfinu til að gangast undir læknisskoðun. 

Oliha var handtekinn í kjölfarið en síðan sleppt eftir að hann sýndi fram á að hann væri diplómati. Borgaryfirvöld hafa gefið það út að Oliha sé til rannsóknar og að bandaríska utanríkisráðuneytið geti svipt Oliha stöðu diplómata. 

„Málið er enn í rannsókn,“ sagði Julian Phillips varalögreglustjóri í New York í yfirlýsingu í dag og bætti við að málið væri á borði utanríkisráðuneytisins.

Eric Adams, borgarstjóri New York, hefur einnig tjáð sig um málið og sagt að það sé í rannsókn. Borgarstjórinn lýsti því jafnframt yfir að kynferiðsofbeldi yrði ekki liðið. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×