Innlent

Enginn spenntur fyrir um­fangs­miklum vikur­flutningum um þjóð­veginn

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Hafursey stendur norður af Hjörleifshöfða sem er vinsæll ferðamannastaður á Mýrdalssandi.
Hafursey stendur norður af Hjörleifshöfða sem er vinsæll ferðamannastaður á Mýrdalssandi. vísir/egill

Þunga­flutningar yrðu mun tíðari um Suður­lands­veginn ef á­form þýsks fyrir­tækis ganga eftir. Vöru­bíll mun keyra í gegn um helstu bæi svæðisins á korters­fresti. Sveitar­fé­lögum á svæðinu líst ekki á blikuna og setja sig upp á móti flutningunum.

Flutningarnir yrðu gríðar­lega um­fangs­miklir en það er þýska fyrir­tækið EP Power Minerals sem stendur að baki á­formunum. Það eignaðist land á Mýr­dals­sandi fyrir tveimur árum og vill hefja þar efnis­töku á vikri, sem yrði fluttur út til Evrópu og jafn­vel Norður-Ameríku til sements­gerðar.

Vikurinn vill fyrir­tækið flytja frá Mýr­dals­sandi í vöru­bílum alla leið til Þor­láks­hafnar þar sem hann yrði fluttur út frá höfninni.

Miðað við þær á­ætlanir sem eru til um verk­efnið, til dæmis um­hverfis­mats­skýrslu sem verk­fræði­stofan Efla gaf út í byrjun mánaðar, er gert ráð fyrir 107 ferðum vöru­flutninga­bíla frá Hjör­leifs­höfða á Sólar­hring. Þeir fara þá af stað á korters­fresti frá svæðinu og keyra í gegn um sjö sveitar­fé­lög áður en komið er til Þor­láks­hafnar. Hella er einn bæjanna sem vöru­bíla­lestin myndi keyra í gegn um.

Hér má sjá leiðina sem vörubílarnir myndu fara um þjóðveg 1.vísir/rúnar

„Fyrstu við­brögð; Þetta virkar nú svoldið bratt. Bæði kannski verk­efnið í heild sinni og svo líka þessir inn­viðir í heild sinni sem að þetta á nú að ganga eftir. Þeir eru alls ekki til­búnir í þetta eins og þeir eru í dag,” segir Jón Guð­mundur Val­geirs­son, sveitar­stjóri Rang­ár­þings ytra.

„Ég held að vega­kerfið hérna bjóði alls ekki upp á þetta eins og staðan er í dag. Ég vildi að það væri þannig en staðan er ekki þannig.”

Fimm sveitar­fé­laganna fengju þá auð­vitað ekkert út úr verk­efninu. Aðal­starfs­stöðin væri í Mýr­dals­hreppi og farmurinn losaður í Þor­láks­höfn, sem er í sveitar­fé­laginu Ölfus.

Jón Guðmundur er nýtekinn við starfi sveitarstjóra Rangárþings ytra.vísir/egill

Hin sveitar­fé­lögin fá að­eins að njóta vöru­bílanna með til­heyrandi há­vaða og truflunum. Jón efast ekki um að þetta myndi hafa mikil á­hrif á íbúa Hellu.

„Já, klár­lega. Eins og þetta er kynnt fyrir fólki núna þá er þetta eins og það sé hérna lest í gangi nánast. Þannig þetta hefur klár­lega á­hrif á svæðið. Bæði í þessu sveitar­fé­lagi og á öðrum hérna á Suður­landi,” segir Jón.

Miklar áhyggjur af ferðamennsku

Mest á­hrif hefði verk­efnið þó lík­lega á íbúa Ölfus og Mýr­dals­hrepps þar sem EP Power Minerals yrði með starfs­stöðvar. Efnistakan og flutnings­leiðir hennar voru ræddar tals­vert fyrir síðustu sveitar­stjórnar­kosningar í Mýr­dals­hreppi. Við hittum á sveitar­stjórann í gær og fengum hans álit á málinu:

„Sveitar­fé­lagið setur sig ekki upp á móti námu­starf­seminni sem slíkri. En við höfum miklar efa­semdir um þessa leið sem er lögð til í þessari um­hverfis­skýrslu. Ýmsar stað­hæfingar þar sem við höldum að séu ekki réttar, til dæmis þegar kemur að mati á um­ferð og ferða­mennsku,” segir Einar Freyr Elínar­son.

Einar talaði fyrir hugmyndinni um höfn í Vík í Mýrdal fyrir sveitarstjórnarkosningar í vor.vísir/egill

Hinn vin­sæli ferða­manna­staður Hjör­leifs­höfði er í grennd við vikur­svæðið en Einar hefur ekki á­hyggjur af honum sem slíkum. Námurnar yrðu stað­settar við Hafurs­ey, sem liggur hinum megin við þjóð­veginn, í nokkurri fjar­lægð frá honum. Á­hyggjurnar sem Einar hefur eru mun víð­tækari og snúa að allri ferða­þjónustu á Suður­landi.

„Ég held að þetta geti tví­mæla­laust haft á­hrif á ferða­mennsku, bara þessi traffík á þjóð­veginum. Við auð­vitað þurfum að huga að því hérna að ferða­þjónusta er gul­leggið okkar. Og þjóð­vegur 1 er líf­æð ferða­mennskunnar,” segir Einar.

Vill ráðast í hafnargerð í Vík

Og til að­koma í veg fyrir öll þessi nei­kvæðu á­hrif vill Einar fara aðra leið. Með henni slyppu í­búar á Suður­landi og ferða­menn á svæðinu við­þunga­um­ferðina.

„Við leggjum það til hjá sveitarfélaginu að það verði skoðaður sá möguleiki að skipa þessu öllu út héðan frá ströndinni og ráðast í hafnargerð,” segir Einar.

Hafiði eitthvað rætt við Þjóðverjana um þann möguleika?

„Já, við höfum þegar komið þessu á framfæri við þá. Og munum gera það aftur núna í framhaldinu.”

Hvernig hafa þeir tekið í það?

„Þeir hafa alls ekki útilokað þetta en þetta var komið í farveg, þessi umhverfismatsskýrsla, en nú teljum við bara mikilvægt að þetta verði endurskoðað.”


Tengdar fréttir

Í­búar á­hyggju­fullir vegna mögu­legrar efnis­töku

Formaður bæjarráðs Árborgar er hræddur um að vegakerfið í sveitarfélaginu þoli ekki þann þungaflutning sem fyrirhugaður er um Suðurland vegna efnistöku á vikri á Mýrdalssandi við Hafursey. Hann segir að það þurfi í mörg horn að líta.

Hjörleifshöfði seldur Íslendingum og Þjóðverjum

Hjörleifshöfði í Mýrdalshreppi hefur verið seldur íslenskum og þýskum aðilum. Þetta herma heimildir fréttastofu. Til stendur að nýta jörðina meðal annars í ferðaþjónustu og vinnslu úr Kötluvikri.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×