Innlent

Efast um að ný starfs­aug­lýsing Ás­laugar Örnu sam­ræmist lögum

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Enskunotkun á Íslandi er feimnismál að sögn Eiríks. Hér vantar meiri umræðu um samlíf þessara tungumála á Íslandi. 
Enskunotkun á Íslandi er feimnismál að sögn Eiríks. Hér vantar meiri umræðu um samlíf þessara tungumála á Íslandi.  vísir/stöð 2

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands, efast um að starfsauglýsing sem birtist á vef háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins síðasta mánudag samræmist lögum um stöðu íslenskrar tungu og táknmáls. Ráðherra deildi auglýsingunni í gær og stærði sig af því að þarna væri í fyrsta skipti auglýst starf í íslensku ráðuneyti þar sem íslenskukunnátta væri ekki skilyrði. 

Í lögum um stöðu ís­lenskrar tungu og tákn­máls stendur skýrum stöfum: „Ís­lenska er mál Al­þingis, dóm­stóla, stjórn­valda, jafnt ríkis sem sveitar­fé­laga, skóla á öllum skóla­stigum og annarra stofnana sem hafa með höndum fram­kvæmdir og veita al­manna­þjónustu.“

Þetta benti Ei­ríkur á í gær og kallaði eftir um­ræðu um stöðu ís­lenskrar tungu gagn­vart ensku.

Sam­kvæmt starfsaug­lýsingunni leitar ráðuneytið eftir talna­spekingi og felur starfið meðal annars í sér fram­setningu og skil­greiningu á mæli­kvörðum, árangurs­mat á verk­efnum sem ráðu­neytið stýrir, undir­búning fjár­mála­á­ætlunar og fjár­laga og miðlun upp­lýsinga bæði innan og utan ráðu­neytisins.

„Ó­hjá­kvæmi­lega leiðir skortur á ís­lensku­kunn­áttu í þessu starfi til þess að stjórn­sýsla ráðu­neytisins verður að veru­legu leyti á ensku sem er skýrt brot á til­vitnaðri laga­grein,“ skrifar Ei­ríkur um málið inn á um­ræðu­hóp á Face­book.

Would you like to work for the Govern­ment?

Á mánu­daginn birtist til­kynning á vef Stjórnar­ráðsins þar sem greint er frá því að há­skóla-, iðnaðar- og ný­sköpunar­ráðu­neytið hafi aug­lýst eftir þremur störfum. Þar má opna hlekk á aug­lýsingu fyrir starf um­rædds talna­spekings undir yfir­skriftinni Talna­spekingur sem elskar árangurs­mæli­kvarða.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir er háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Vísir/Vilhelm

Sama dag birtist mun lengri og ítar­legri starfs­lýsing á enskri út­gáfu af heima­síðu Stjórnar­ráðsins fyrir um­rætt starf undir titlinum Would you like to work for the Govern­ment?

Í hæfnis­kröfunum er tekið fram að við­komandi verði að hafa „gott vald á ís­lensku og/eða ensku“.

Ás­laug Arna Sigur­björns­dóttir, há­skóla-, iðnaðar- og ný­sköpunar­ráð­herra, deildi enskri út­gáfu starfs­aug­lýsingarinnar á Face­book-síðu sinni í gær og til­kynnti að hér væri um að ræða fyrsta skipti þar sem ekki væri gerð krafa um ís­lensku­kunn­áttu í starfi innan ráðu­neytis.

Hér er í fyrsta sinn auglýst starf í Stjórnarráðinu þar sem íslenska er ekki krafa. Would you like to work with us?...

Posted by Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir on Wednesday, 29 June 2022

Megum ekki halda á­fram að stinga höfðinu í sandinn

„Ég legg á­herslu á, eins og ég hef oft gert, að al­mennt séð á ekki að nota skort á ís­lensku­kunn­áttu til að mis­muna fólki við ráðningu í störf eða á öðrum sviðum. En það á að­eins við um ó­mál­efna­lega mis­munun, þegar fyrir liggur að fólk geti sinnt starfinu full­kom­lega án ís­lensku­kunn­áttu – þegar beiting tungu­máls er ó­veru­legur þáttur í starfinu, eða þörf á sam­skiptum við Ís­lendinga tak­mörkuð,“ skrifar Ei­ríkur um málið.

Í sumum til­vikum sé þó „mál­efna­legt og eðli­legt og jafn­vel nauð­syn­legt, að gera kröfu um ís­lensku­kunn­áttu vegna eðlis starfsins. Ég get ekki betur séð en svo sé í þessu til­viki – starfið grund­vallast á mál­legum sam­skiptum í ræðu og riti,“ að hans sögn.

Um þessi at­riði megi vissu­lega deila. En skort hafi um­ræðu um á­hrif enskrar tungu á ís­lensk sam­fé­lag, hvernig við tryggjum hags­muni fólks sem kann ekki ensku og hags­muni fólks sem hér býr en kann ekki ís­lensku.

„Það hefur ekki borið á miklum um­ræðum um þetta, og verið farið með ensku­notkun á Ís­landi svo­lítið eins og feimnis­mál. Við tölum ís­lensku á Ís­landi, segjum við. En við vitum samt að enskan er komin til að vera og ekkert bendir til annars en mikil­vægi hennar í mál­sam­fé­laginu haldi á­fram að aukast. Við megum ekki halda á­fram að stinga höfðinu í sandinn – við þurfum að ræða þetta. Að minnsta kosti þurfum við að gera upp við okkur hvort það sé í lagi að starfs­aug­lýsingar stjórnar­ráðsins brjóti í bága við lög,“ skrifar Ei­ríkur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×