Innlent

Mann­skemmandi fyrir fólk að vera dregið aftur í myrkrið

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Guðmundur Ingi hefur verið formaður Afstöðu félags fanga í átta ár. 
Guðmundur Ingi hefur verið formaður Afstöðu félags fanga í átta ár. 

For­maður Af­stöðu kallar eftir breyttri lög­gjöf um reynslu­lausn á Ís­landi. Fangar sem fá þyngri dóma fá sjaldan sem aldrei reynslu­lausn hér ó­líkt því sem tíðkast á Norður­löndum.

Greint var frá því í fréttum okkar í gær að Mirjam Foekje van Twu­ijver, 53 ára hollensk kona, sem hlaut fyrir sjö árum einn allra þyngsta dóm sem fallið hefur í fíkni­efna­máli á Ís­landi hefði stefnt ríkinu fyrir frelsis­sviptingu. Mirjam var svo­kallað burðar­dýr og fékk fyrst ellefu ár fyrir að smygla gífur­legu magni af fíkni­efnum til landsins. Hæsti­réttur mildaði dóminn í átta ár.

Hún hafði fengið að af­plána hluta dóms síns utan fangelsis undir raf­rænu eftir­liti vegna þess að Út­lendinga­stofnun vildi senda hana úr landi. Hún kærði það til kæru­nefndar út­lendinga­mála og fékk á­kvörðun út­lendinga­stofnunar snúið við.

En þá á­kvað Fangelsis­mála­stofnun að for­sendur þess að hún af­plánaði rest refsingar sinnar utan fangelsis væru brostnar og Mirjam var kölluð aftur inn í fangelsi. Hún lýsti þeirri reynslu eins og „hel­víti“ í sam­tali við frétta­stofu í gær.

Ættum að beita reynslulausn oftar á Íslandi

Guð­mundur Ingi Þór­odds­son, for­maður Af­stöðu fé­lags fanga, segir málið afar slæmt. Gera hefði átt undan­tekningu á þessari reglu í til­viki Mirjam fyrst hún var komin út úr fangelsi

„Það er náttúru­lega búið að taka þetta í­gildi stjórn­valds­á­kvörðunar og það er erfitt að draga það til baka. Þannig maður skilur það alveg að þegar manneskja er komin í ljósið og hún sé dregin aftur í myrkrið, það er hrika­lega erfitt og mann­skemmandi í raun og veru,“ segir Guð­mundur Ingi.

Og í raun er hann á því að Fangelsis­mála­stofnun eigi að vera mun viljugri til að veita föngum reynslu­lausn, ekki aðeins í þessu sérstaka tilviki Mirjam. Eins og kerfið er í dag er venjan að þeir sem hljóta þyngri dóma verði að af­plána tvo þriðju þeirra en hinir sem hljóti vægari dóma eigi mögu­leikann á því að fá reynslu­lausn eftir helming fangelsis­tímans. Guð­mundur Ingi segir tíma til kominn að hinir sem hljóti þyngri dóma fái einnig þennan mögu­leika.

„Það eru heimildir sem að Norður­löndin eru farin að nota miklu meira. Og byggist á því að þegar fólk er að standa sig vel og ná bata þá er þessi laga­grein notuð. En hér er hún aldrei notuð,“ segir Guð­mundur Ingi.

Hann segir það gallaða hug­mynda­fræði að láta fanga af­plána meira en helming af dómi sínum í öllum til­fellum.

Reynslu­lausn sé frá­bært tæki að beita þegar fangar hafa náð góðri endur­hæfingu í fangelsum og byggt sig upp. Kominn sé tími á heildar­endur­skoðun á lög­gjöfinni.

„Hér vill fangelsis­mála­stofnun ekki taka þessa stóru pólitísku á­kvörðun. Hún þarf að koma frá Al­þingi Ís­lendinga,“ segir Guð­mundur Ingi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×