Erlent

Fjölda­morðinginn í Kongs­berg dæmdur til vistunar á geð­deild

Kjartan Kjartansson skrifar
Fólk minnist fórnarlamba árásarinnar í Kongsberg í október í fyrra.
Fólk minnist fórnarlamba árásarinnar í Kongsberg í október í fyrra. AP/Pal Nordseth

Dómstóll í Noregi sakfelldi 38 ára gamlan danskan karlmann fyrir morð og tilraun til manndráps í bænum Kongsberg í fyrra. Maðurinn, sem myrti fimm og særði fjóra, var dæmdur til vistunar á geðdeild.

Bæði saksóknarar og verjendur í málinu fóru fram á að Espen Andersen Bråthen yrði skyldaður í læknismeðferð þar sem hann gæti ekki talist sakhæfur. Þrír réttargeðlæknar komust að þeirri niðurstöðu að hann hefði þjáðst af ofsóknargeðklofa og verið í geðrofi þegar hann framdi morðin 13. október í fyrra.

Maðurinn hóf árásina í miðborg Kongsberg með því að skjóta örvum af boga innan í matvöruverslun. Síðar réðst hann á fólki með hnífi inni á heimili þess. Hann var með 62 örvar og fjóra hnífa á sér þegar hann var loks handsamaður.

„Við eigum hér við andlega veika manneskju. Manneskju sem er ekki með sektarkennd,“ sagði Andreas Christiansen, saksóknarinn í málinu, í lokaræðu sinni fyrir dómi, að sögn AP-fréttastofunnar.

Dómararnir í málinu sögðu að morðinginn hefði útskýrt við dómhaldið að hann hefði reynt að drepa fólk til að geta endurfæðst. Hann hafi talið að hann yrði blindur og því hefði hann haft brýna nauðsyn að myrða fólk.

Andersen Bråthen verður vistaður á Dikemark-geðsjúkrahúsinu í Asker. Hann var jafnframt dæmdur til að greiða aðstandendum fórnarlambanna bætur. Fórnarlömbin voru fjórar konur og einn karlmaður á aldrinum 52 til 78 ára.


Tengdar fréttir

Fórnarlömbin í Kongsberg voru myrt með eggvopnum

Fimm manns sem létu lífið í árás vopnaðs manns í Kongsberg í Noregi í síðustu viku voru stungnir til bana en ekki skotnir með boga og örvum eins og talið var í fyrstu. Sumir þeirra voru myrtir heima hjá sér en aðrir úti á götu.

Ó­dæðis­maðurinn vistaður á stofnun: Norð­menn eru í sárum

Norðmenn eru í sárum eftir ódæðin í fyrradag þegar karlmaður vopnaður boga og örvum myrti fimm manns. Lögregla telur ekki um hryðjuverkaárás að ræða heldur sé árásarmaðurinn andlega veikur. Hann hefur verið vistaður á viðeigandi stofnun.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.