Innlent

Koma þurfi á virku eftir­­liti með lög­­reglu áður en hug­­myndir um auknar heimildir hennar eru skoðaðar

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata.
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata. Vísir/Vilhelm

Þingmaður Pírata segir að það sé gömul saga og ný að lögreglan vilji auknar valdheimildir. Koma þurfi á virku eftirliti með störfum lögreglu áður en hugmyndir um lengri gæsluvarðhaldstíma séu skoðaðar.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu kallaði í gær eftir vægari kröfum um gæsluvarðhald en hún vill að lögregla fái auknar heimildir til að halda fólki lengur en í tólf vikur í haldi. Slíkar heimildir myndu að sögn lögreglustjórans auðvelda rannsókn mála er varða skipulagða brotastarfsemi.

Tólf vikur séu langur tími

Þingmaður Pírata segir það ekki nýtt að lögreglan falist eftir auknum heimildum. Lögreglan hafi nú þegar mjög víðtækar heimildir til að fara fram á gæsluvarðhald og að tólf vikna varðhald sé gríðarlega langur tími. Þá segir hún skorta upp á eftirlit með störfum lögreglu.

„Eins og við höfum bent á núna í talsvert langan tíma þá er í rauninni mjög takmarkað, ef nokkuð, raunverulegt eftirlit með störfum lögreglu annað en bara eftirlit dómstóla þegar störfum er lokið þar sem fólk getur óskað eftir skaðabótum ef það hefur verið brotið á því. Það er í rauninni lítil skoðun á vinnubrögðum lögreglu yfirhöfuð,“ sagði Arndís Anna K. Gunnarsdóttir.

Hæstaréttarlögmaður sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar að ákall lögreglustjórans boði mikla aftuför í þeim réttarfarslegu framförum sem hafa átt sér stað. Evrópuráðið og stofnanir þess hafi þrýst á íslensk stjórnvöld og löggjafann að herða skilyrðin fyrir gæsluvarðhaldi og því segir lögmaðurinn sjónarmið lögreglustjórans fráleit.

„Ég tel alveg augljóst að áður en við förum að auka heimildir þá þurfi að koma á einhvers konar virku eftirliti þar sem það hafa komið upp áhyggjur af því að það sé verið að misbeita þessum heimildum nú þegar,“ sagði Arndís.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.