Lífið

Kjaftæði að það sé ekki hægt að gera betur: „Við höldum áfram að berjast“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Ásdís Arna Gottskálksdóttir formaður Góðvildar. Ásdís eignaðist langveikan dreng, Björgvin Arnar, árið 2007. Hann var sjö mánaða greindur með hjartagalla en rétt greining fékkst ekki fyrr en hann var sex ára. Aðeins hálfu ári seinna var hann látinn.
Ásdís Arna Gottskálksdóttir formaður Góðvildar. Ásdís eignaðist langveikan dreng, Björgvin Arnar, árið 2007. Hann var sjö mánaða greindur með hjartagalla en rétt greining fékkst ekki fyrr en hann var sex ára. Aðeins hálfu ári seinna var hann látinn. Mission framleiðsla

Í lokaþættinum af Spjallið með Góðvild ræðir Sigurður Hólmar Jóhannesson framkvæmdastjóri Góðvildar um verkefnið við Ásdísi Örnu Gottskálksdóttur formann félagsins.

Þættirnir hafa síðustu tvö ár verið vettvangur til að koma málefnum langveikra og fatlaðra barna á framfæri og auka í leiðinni sýnileika.

Ekki hætt að berjast

„Við  höfum séð breytingar en við höfum líka séð fullt af málefnum sem við höfum tekið hérna upp sem engar breytingar hafa verið,“ segir Sigurður. Hann vonar að þetta verkefni hafi þó mögulega ýtt einhverju af stað sem verði til breytinga í framtíðinni.

„Við erum samt ekkert hætt. Við höldum áfram að berjast fyrir réttindum þessa hóps.“

Ásdís segir að það nágrannaþjóðirnar séu komnar lengra í að hafa kerfisbundinn stuðning fyrir fjölskyldur þessara barna. 

„Það virðist vera þannig hér á landi að foreldrar sem eru í þessari stöðu með börn sín þurfi að berjast fyrir því að fá þá þjónustu og aðstoð og hjálpartæki sem með þarf.“

Margir foreldrar bugaðir

Hún bendir á að það sé einkennilegt að foreldrar þurfi að grenja út þjónustu sem er jafnvel gert ráð fyrir samkvæmt lögum.

„Við eigum að búa í velferðarsamfélagi. Það er alltaf þannig að ef foreldri er í stakk búið til að berjast fyrir þjónustunni þá fá þau þjónustu, á endanum. En hvað með alla hina foreldrana sem eru bara bugaðir og eru ekki með orku og kraft til að berjast?“

Sigurður bendir á að hér á landi sé ekki alltaf sýnilegt hvaða réttindi, þjónusta og úrræði eru í boði fyrir foreldra langveikra og fatlaðra barna. „Þú þarft eiginlega að vita númerið á eyðublaðinu til að fá það afhent.“

Að hans mati er ekki rétt að ekki sé hægt að gera betur í þessum málaflokki, til dæmis hvað varðar biðtíma eftir greiningum. 

„Þetta á ekki að vera svona flókið.“ 

Verkfæri fyrir alla sem vinna að málaflokknum

Verkefnið Spjallið með Góðvild er afurð margra ára samstarfs Sigurðar og Ágústu Fanneyjar Snorradóttur kvikmyndagerðarkonu og eiganda Mission Framleiðslu, sem vann þættina fyrir Vísi. 

Þau vildu auka sýnileikann á málefnum langveikra og fatlaðra barna. Markmið þeirra með þáttunum Spjallið með Góðvild var líka að skapa verkfæri fyrir framhaldið, sem myndi gagnast öllum sem vinna að þessum málaflokki. Ætla þau núna að afhenda heilbrigðisráðherra og félags- og barnamálaráðherra verkefnið. 

„Við höfum gert okkar til að lyfta þessum málum upp og ég tel að okkur hafi tekist gríðarlega vel.“

Lokaþáttinn má sjá í spilaranum hér fyrir neðan en alla þættina má finna HÉR á Vísi.

Klippa: Spjallið með Góðvild - Lokaþáttur

Þættirnir Spjallið með Góðvild eru sýndir á Vísi tvisvar í mánuði en einnig er hægt að hlusta á flestum hlaðvarpsstöðvum.

Verkefnið er afurð margra ára samstarfs Sigurðar Hólmars Jóhannessonar framkvæmdastjóra Góðvildar og Ágústu Fanneyjar Snorradóttur kvikmyndagerðarkonu og eiganda Mission Framleiðslu.

Þættirnir eru nýr vettvangur til að koma málefnum langveikra og fatlaðra barna á framfæri og auka í leiðinni sýnileika fyrir mikilvæg málefni. Hægt er að hafa samband við Sigurð og Ágústu Fanney vegna þáttanna í gegnum vefsíðuna godvild.is eða samfélagsmiðla félagsins. Með því að styrkja Góðvild þá ertu að styðja við langveik og fötluð börn á Íslandi. Styrktarreikningur 0301-26-660117, kennitala 6601172020.


Tengdar fréttir

Baráttan hófst 16 klukkustundum eftir að hún fæddist

„Það kom fljótt í ljós að það var ekki allt með feldu, þetta er búið að vera rússíbanareið síðan árið 2013,“ segir Árni Björn Kristjánsson faðir langveikrar og fatlaðrar stúlku.

Ósanngjarnt að ógreindir fái ekki þjónustu við hæfi

„Gallinn á Íslandi er smæðin okkar,“ segir Hans Tómas Björnsson yfirlæknir í klínískri erfðafræði á Landspítalanum. Hann segir að erlendis sé auðvelt að búa til göngudeildir fyrir ákveðna sjúkdóma eða sjúkdómahópa. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×