Sport

Mari Jaersk sigraði Bakgarð 101 eftir 43 hringi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þorleifur og Mari.
Þorleifur og Mari. Mynd/Náttúruhlaup

Mari Jaersk bar sigur úr býtum í Bakgarði 101 en hlaupinu lauk rétt fyrir klukkan 4 í nótt. Mari hljóp 43 hringi, samtals 288,1 km, en í öðru sæti var Þorleifur Þorleifsson, sem hóf 43. hringinn en snéri við eftir um 15 mínútur.

„Við erum enn orðlaus yfir þessum ótrúlega árangri þeirra beggja. Mari ætti að vera í 22. sæti ásamt tveimur öðrum á heimslistanum sem gildir frá því í ágúst í fyrra og Þorleifur í því 24. með 7 öðrum, þ.á.m. Courtney Dauwalter. Við höldum að Viktoriia Nikolaienko frá Úkraínu sé eina konan sem hefur náð fleiri hringjum en Mari á núverandi heimslista. Algjörlega magnað,“ segir um úrslitin á heimasíðu hlaupsins.

Elísabet Margeirsdóttir, einn aðalskipuleggjenda hlaupsins, sagði í gær að árangur keppendanna hefði farið fram úr björtustu vonum og hún hafi jafnvel gert ráð fyrir því að vera búin að pakka öllu saman á hádegi í gær. 

Alls hófu 122 þátttakendur leik á laugardagsmorgun.

Þetta er í þriðja sinn sem Náttúruhlaup heldur keppnishlaupið Bakgarð. Þorleifur sigraði fyrstu keppnina árið 2020 og Mari bar sigur úr býtum í fyrra. Bæði enduðu þau hlaupið á 25 hringjum og er Íslandsmetið í Bakgarðshlaupi því kolfallið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×