Viðskipti innlent

Fjöldi lágra fjárhæða í útboðinu kom Bankasýslunni á óvart

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Styr hefur staðið um framkvæmd sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Bankasýsla ríkisins hefur nú svarað ítarlegum spurningalista fjárlaganefndar um fyrirkomulagið.
Styr hefur staðið um framkvæmd sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Bankasýsla ríkisins hefur nú svarað ítarlegum spurningalista fjárlaganefndar um fyrirkomulagið. Vísir/Vilhelm

Fjöldi lágra áskrifta í útboðinu á 22,5 prósent hlut ríkisins á Íslandsbanka kom Bankasýslu ríkisins á óvart. Hvergi hafi þó komið fram hugmyndir um að setja viðmið um lágmarksupphæð við stjórnsýslulega- og þinglega meðferð í aðdraganda útboðsins. Stofnunin telur að almennt hafi útboðið tekist vel, en betur hafi mátt kynna fyrir sölufyrirkomulagið fyrir almenningi.

Þetta kemur fram í minnisblaði Bankasýslunnar sem stofnunin hefur sent fjárlaganefnd Alþingis, í aðdraganda opins fundar nefndarinnar á morgun þar sem forsvarsmenn Bankasýslunnar munu sitja fyrir svörum vegna sölunnar á Íslandsbanka.

Fjárlaganefnd hafði óskað eftir minnisblaðinu en í því svarar stofnunin þrjátíu spurningum nefndarinnar, í 44 liðum. Upphaflega átti fundurinn að vera haldinn í gær. Bankasýslan fór hins vegar fram á nokkurra daga frest til að leggja lokahönd á minnisblaðið, sem hefur nú verið skilað inn til fjárlaganefndarinnar.

Í minnisblaðinu fer Bankasýslan yfir ýmis atriði varðandi söluna á Íslandsbanka. Meðal annars hvernig staðið hafi verið að vali þeirra söluráðgjafa sem voru Bankasýslunni til aðstoðar við söluna, með hvaða hætti fjárfestar hafi verið valdir og hvernig staðið var að útboðinu.

Órökrétt að tala um litla fjárfesta

Eitt af því sem hefur verið gagnrýnt er að „litlir fjárfestar“ hafi tekið þátt í útboðinu, það er keypt fyrir tiltölulega lágar fjárhæðir. Þannig tóku 22 aðilar þátt í útboðinu fyrir minna en tíu milljónir, allt niður í rúmlega eina milljón króna.

Ein af þeim spurningum sem Bankasýslan svarar kemur inn á þetta atriði en þar er spurt á hvaða tímapunkti hafi verið ákveðið að hleypa litlum fjárfestum inn í tilboðsferlið.

Að auki var spurt um hvort að bankasýslan hafi verið með markmið um ákveðið hlutfall smærri fjárfesta og hvert hafi verið viðmið í fjölda fjárfesta og fjárhæð í kaupum hvers og eins.

Í svari Bankasýslunnar segir að órökrétt sé að tala um „litla fjárfesta“ því að útboðinu hafi verið beint að hæfum fjárfestum og öðrum ekki.

Þá kemur fram að Bankasýslan og mögulegir söluráðgjafar hafi framkvæmt frummat á markaðssaðstæðum í aðdraganda útboðsins og fengið nokka góða mynd af áhuga stærri aðila. Að auki var þess vænst að einkafjárfestar myndu hafa huga á að taka þátt. Fjöldi lágra upphæða í útboðinu hafi hins var komið Bankasýslunni á óvart.

„Af hálfu söluráðgjafa í aðdraganda útboðsins kom ekki fram að stofnunin mætti búast við lágum áskriftum frá fjárfestum. Kom því fjöldi lágra fjárhæða í sjálfu útboðinu stofnuninni á óvart, en á þeim tímapunkti, þ.e. eftir að áskriftartímabili var lokið, hafði stofnunin engar heimildir til að úthluta áskriftum til slíkra fjárfesta með öðrum hætti en aðra sambærilega fjárfesta með hliðsjón af meginreglunni um jafnræði bjóðenda.“

Ekkert hafi komið fram um að æskilegt hafi verið að setja lágmarksupphæð

Í svörum Bankasýslunnar kemur einnig fram að ekki hafi verið sett nein lágmarksfjárhæð á tilboð í útboðinu. Ekkert hafi komið fram um að slíkt væri æskilegt í stjórnsýslulegri umfjöllun málsins hjá ríkisstjórn eða í kynningum Bankasýslunnar fyrir þingnefndum.

Aðspurð um hvers vegna fjárhæð tilboða hafi verið jafn lág og raun bar vitni segir Bankasýslan að vert sé að benda á aðeins liggi fyrir opinberar upplýsingar um úthlutunar fjárhæð þátttakenda, ekki hversu mikið þeir hafi skráð sig í áskrift fyrir.

Komið hefur fram að meginþorri eignarhaldsfélaga og fjársterkra einstaklinga, sem voru metnir langtímafjárfestar af hálfu Bankasýslunnar, fengu úthlutað bréfum í bankanum sem nam yfir 40 prósentum af þeirri upphæð sem þeir skráðu sig fyrir. Það sama átti við um verðbréfasjóði, tryggingafélög og lífeyrissjóði.

Tilboðsgjafar sem voru metnir skammtímafjárfestar, eins og meðal annars svonefndir spákaupmenn og fjárfestingarsjóðir sem notast við mikla skuldsetningu í kaupum sínum á hlutabréfamarkaði, þurftu að sæta umtalsvert meiri skerðingum en aðrir fjárfestar og fengu að jafnaði úthlutað til sínum bréfum sem námu um 15 prósentum af þeirri fjárhæð sem þeir óskuðu eftir.

Í svörum Bankasýslunnar segir eftirfarandi um skerðingarhlutfall í útboðinu:


Af innlendum fjárfestum var hlutfall úthlutunar og áskrifta eftirfarandi að meðaltali: Lífeyrissjóðir 38,8%, einkafjárfestar 37,8%, hefðbundnir hlutabréfafjárfestar (e. long only investors) 40,4% og aðrir fagfjárfestar (e. hedge funds and proprietary trading) 15,0%.11 Af erlendum fjárfestum var hlutfall úthlutunar og áskrifta eftirfarandi að meðaltali: Hefðbundnir hlutabréfafjárfestar 45,8% og aðrir fagfjárfestar 17,9%. Að meðaltali var hlutfallið 36,5% hjá innlendum fjárfestum, 27,0% hjá erlendum fjárfestum og 34,7% fyrir útboðið allt


Bankasýslan svarar því einnig hvernig staðið hafi verið að því að velja þá sem tóku þátt í útboðinu. Segir stofnunin að ekki sé rétt að segja að um eiginlegt val hafi verið að ræða. Söluráðgjafir hafi haft samband við hæfa fjárfesta en stofnunin bendir einnig á að hæfir fjárfestar hafi getað sett sig í samband við söluráðgjafa að fyrra bragði um að taka þátt, þar sem þess hafi verið gætt að láta vita að útboðið stæði yfir.

Tekist vel út frá fjárhagslegri hlið en hefði mátt kynna betur

Í minnisblaðinu segir stofnunin að hún telji að útboðið hafi almennt tekist vel út frá fjárhagslegum markmiðum. Framkvæmd þess hafi verið í fullu samræmi við lýsingu stofnunarinnar um sölu með tilboðsfyrirkomulagi. Einnig hafi það verið í samræmi við þær upplýsingar sem stofnunin kynnti fyrir fjárlaganefnd, efnahags- og viðskiptanefnd.

Telur stofnunin þó að betur hafi mátt standa að kynningu til almennings á sölufyrirkomulaginu. 

„[O]g þá sérstaklega á framkvæmd útboðs með tilboðsfyrirkomulagi og þar með talið hverjir gætu tekið þátt. Virðist ljóst af umræðum í kjölfar útboðsins að á meðal almennings ekki hafi ríkt skilningur á því hvernig útboð með tilboðsfyrirkomulagi kæmi til með að fara fram þ.á m. hverjir gætu tekið þátt.“

Fjármálaráðuneytið hefur einnig sent minnisblað til nefndarinnar, þar sem ráðuneytið svarar spurningum nefndarinnar um söluna.

Opinn fundur fjárlaganefndar Alþingis þar sem starfsmenn Bankasýslunnar sitja fyrir svörum hefst klukkan níu á morgun. Hann verður í beinni útsendingu á Vísi.


Tengdar fréttir

SKEL seldi í Íslandsbanka, keypti í VÍS og fer með yfir sjö prósenta hlut

Fjárfestingafélagið SKEL, sem áður hét Skeljungur, keypti í morgun um 2,5 prósenta hlut í VÍS fyrir tæplega 800 milljónir króna. Fyrir átti SKEL um 4,8 prósenta eignarhlut í VÍS, sem er í formi framvirka samninga, og er því eftir kaupin í dag fjórði stærsti hluthafi tryggingafélagsins með rúmlega 7,3 prósenta hlut.

„Viltu ekki bara afhenda mér lyklana?“

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar tókust hart á í umræðum sölu ríkisins á hlut í Íslandsbanka. Á einum tímapunkti spurði Kristrún Bjarna hvort hann vildi ekki afhenda henni lyklana að fjármálaráðuneytinu. Bjarni kvartaði ítrekað undan því að gripið væri fram í fyrir honum á meðan hann svaraði Kristrúnu

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.