Innherji

SKEL, Stálskip og BYGG meðal stórra fjárfesta í útboði Íslandsbanka

Hörður Ægisson skrifar
Mikil viðskipti hafa verið með bréf í Íslandsbanka eftir að útboðið kláraðist og hafa meðal annars lífeyrissjóðirnir Gildi og LSR verið að bætta enn frekar við hlut sinn í bankanum.
Mikil viðskipti hafa verið með bréf í Íslandsbanka eftir að útboðið kláraðist og hafa meðal annars lífeyrissjóðirnir Gildi og LSR verið að bætta enn frekar við hlut sinn í bankanum. Vísir/Egill

Í hópi þeirra 140 einkafjárfesta sem tóku þátt í útboði ríkissjóðs á stórum hlut í Íslandsbanka og keyptu hvað mest, eða fyrir á bilinu um 200 til 500 milljónir hvor um sig, voru meðal annars Ólafur D. Torfason, aðaleigandi Íslandshótela, Byggingarfélag Gylfa og Gunnars (BYGG), fjárfestingafélagið Stálskip, útgerðarfélagið Jakob Valgeir, Hannes Hilmarsson, stjórnarformaður Air Atlanta, og eignarhaldsfélagið Kadúseus sem er í meirihlutaeigu Sveins Valfells.

Þá fer SKEL fjárfestingafélag (áður Skeljungur) núna með 0,19 prósenta eignarhlut í Íslandsbanka, sem var keyptur að langmestu í útboðinu, en miðað við núverandi markaðsgengi bankans er sá hlutur metinn á tæplega 500 milljónir. Meirihlutaeigandi SKEL er fjárfestingafélagið Strengur en Jón Ásgeir Jóhannesson, einn aðaleigenda Glitnis banka á sínum tíma, er stjórnarformaður beggja félaganna.

Þetta sýnir listi yfir alla hluthafa Íslandsbanka miðvikudaginn 30. mars síðastliðinn, sem Innherji hefur séð, tveimur dögum eftir að uppgjör viðskipta vegna sölu ríkissjóðs á 22,5 prósenta hlut í bankanum fyrir tæplega 53 milljarða króna hafði farið fram.

Sá listi gefur hins vegar alls ekki tæmandi mynd af umsvifum einkafjárfesta og fjárfestingafélaga í hluthafahópi Íslandsbanka eftir hlutafjárútboðið en stór hópur slíkra fjárfesta keypti í því með fjármögnun frá bönkum í gegnum framvirka samninga. Þeir eignarhlutir eru því í skráðir á bankanna og í vörslu þeirra en samanlagður hlutur Arion, Landsbankans og Kviku eftir útboðið nemur tæplega fjórum prósentum, eða sem jafngildir yfir 10 milljörðum að markaðsvirði. Ætla má að þeir eignarhlutir komi einkum til vegna framvirkra samninga sem bankarnir hafa gert við viðskiptavini sína í tengslum við útboðið.

Verðið í útboði ríkissjóðs var ákvarðað 117 krónur á hlut, eða um 4 prósentum lægra en lokaverð síðasta viðskiptadags, en það stendur núna í 128,2 krónum á hlut og hefur því hækkað nærri 10 prósent. Mikil viðskipti hafa verið með bréf í Íslandsbanka eftir að útboðið kláraðist og hafa meðal annars lífeyrissjóðirnir Gildi og LSR verið að bætta enn frekar við hlut sinn í bankanum.

Í kynningu sem Bankasýslan hélt fyrir ráðherranefnd um efnahagsmál síðasta föstudag kom fram að samtals 140 innlendir einkafjárfestar, sem voru skilgreindir sem fagfjárfestar, hefðu keypt í útboðinu fyrir um 16 milljarða króna, eða tæplega 31 prósent þeirrar fjárhæðar sem ríkissjóður seldi.

Meginþorri eignarhaldsfélaga og fjársterkra einstaklinga, sem voru metnir langtímafjárfestar af hálfu Bankasýslunnar, fengu úthlutað bréfum í bankanum sem nam yfir 40 prósentum af þeirri upphæð sem þeir skráðu sig fyrir. Það sama átti við um verðbréfasjóði, tryggingafélög og lífeyrissjóði.

Tilboðsgjafar sem voru metnir skammtímafjárfestar, eins og meðal annars svonefndir spákaupmenn og fjárfestingarsjóðir sem notast við mikla skuldsetningu í kaupum sínum á hlutabréfamarkaði, þurftu að sæta umtalsvert meiri skerðingum en aðrir fjárfestar og fengu að jafnaði úthlutað til sínum bréfum sem námu um 15 prósentum af þeirri fjárhæð sem þeir óskuðu eftir.

Útgerðarfyrirtækið Jakob Valgeir ehf. í Bolungarvík, sem er stýrt af Jakobi Valgeir Flosasyni, er stærsti einkafjárfestirinn á hluthafalista Íslandsbanka eftir útboðið með rúmlega eins prósenta hlut sem er metinn í dag á um 2,6 milljarða. Félagið hefur verið að byggja upp stöðu í bankanum um nokkurt skeið, og var skráð fyrir 0,8 prósenta hlut í byrjun þessa árs, en bætti enn frekar við eignarhlut sinn í útboðinu með kaupum fyrir meira en 400 milljónir króna.

Félagið Kadúseus, sem er stýrt af Ársæli Valfells, jók einnig talsvert við eignarhlut sinn í bankanum og fer núna með 0,34 prósenta hlut sem er metinn á nærri 900 milljónir króna. Aðaleigandi félagsins, Sveinn Valfells, sat á sínum tíma í bankaráði Íslandsbanka.

Aðrir einkafjárfestar og fjárfestingafélög sem komast á lista yfir 50 stærstu hluthafa Íslandsbanka eftir að hafa tekið myndarlega þátt í hlutafjárútboðinu eru ÓDT Ráðgjöf, sem er í eigu Ólafs D. Torfasonar, aðaleigenda Íslandshótela en það fer núna með 0,22 prósenta hlut upp á tæplega 600 milljónir að markaðsvirði. Byggingarfélag Gylfa og Gunnars, sem hagnaðist um nærri 4 milljarða á árunum 2019 og 2020 og var með eigið fé upp á 10 milljarða í árslok 2020, er með litlu minni eignarhlut í bankanum en Gunnar Þorláksson húsasmíðameistari og Gylfi Ómar Héðinsson múrarameistari, eiga hvor um sig helmingshlut í félaginu.

Hannes Hilmarsson, eigandi fjárfestingafélagsins Pund, fer með 0,12 prósenta eignarhlut sem hann keypti að stórum hluta í útboðinu. Hannes átti meðal annars helmingshlut í flugfélaginu Air Atlanta í fyrra þegar móðurfélag þess greiddi eigendum sínum sjö milljarða króna í arð. Fjárfestingafélagið Stálskip sem er í eigu Guðrúnar Lárusdóttir og þriggja dætra hennar tók einnig þátt og fer núna með 0,1 prósenta eignarhlut í bankanum. Félagið hefur komið að ýmsum fjárfestingum á undanförnum árum, meðal annars í Heimavöllum og Borgun, og var með tæplega 13 milljarða króna eigið fé í lok ársins 2020.

Íslenskir lífeyrissjóðir fengu úthlutað meira en þriðjung þeirra eignarhluta sem ríkissjóður seldi. Samtals keyptu 23 lífeyrissjóðir, sem áttu fyrir útboðið samanlagt um 16 prósenta hlut í bankanum, fyrir 19,5 milljarða króna, eða sem jafngildir liðlega 8,5 prósenta eignarhlut, að því er fram kom í kynningu Bankasýslunnar. Lífeyrissjóðurinn Gildi, sem átti fyrir útboðið um 3,4 prósenta hlut, var stærsti einstaki fjárfestirinn og keypti fyrir samanlagt 3,5 milljarða króna og fer núna með rétt rúmlega 5 prósenta eignarhlut í bankanum.

Í kynningu Bankasýslunnar kom jafnframt fram að erlendir fjárfestingarsjóðir hafi verið með um 15 prósent þeirrar fjárhæðar sem var seld í útboðinu og keyptu þeir því fyrir samtals 7,9 milljarða króna. Að þeim kaupum stóðu samtals 19 sjóðir en þeir sem keyptu mest voru Capital Group og RWC Asset Management en þau sjóðastýringarfyrirtæki voru á meðal hornsteinsfjárfesta í frumútboði Íslandsbanka um mitt árið í fyrra.

Aðrir erlendir sjóðir sem keyptu í útboðinu, að því er lesa má út úr hluthafalista Íslandsbanka, voru meðal annars Mainfirst, Lansdowne Partners, Schroder, Fiera Capital, Franklin Templeton, Arbiter Partners, Þjóðarsjóður Kúveit, Asmore Investment og Legal & General.

Innlendir verðbréfasjóðir, eins og meðal annars í stýringu Íslandssjóða, Akta, Stefnis, Landsbréfa og Kviku eignastýringar, keyptu samtals fyrir 5,6 milljarða króna í útboðinu.

Bréfin sem ríkissjóður seldi fóru til 209 fjárfesta en samtals bárust hins vegar 430 tilboðspantanir á því verði sem var ákvarðað í útboðinu en stór hluti þeirra hafði einnig tekið þátt í frumútboði Íslandsbanka um mitt síðasta ár þegar hann var skráður á markað.

Fimmtán fjárfestar, sem ætla má að séu að stórum hluta lífeyrissjóðir, keyptu fyrir meira en einn milljarð króna en algengast var að úthlutun til fjárfesta hafi numið annaðhvort á bilinu 100 til 200 milljónum eða 10 til 30 milljónum króna. Samtals 101 fjárfestir fékk að kaupa fyrir 100 milljónir eða meira í útboðinu.

Salan í Íslandsbanka fór fram með tilboðsfyrirkomulagi, algengasta aðferðin þegar selja þarf jafn stóran hlut í skráðu félagi, þar sem söluráðgjafar kanna áhuga hæfra fjárfesta á einum eða tveimur dögum og afla þannig upplýsinga um vilja þeirra til að taka þátt í útboði, með svipuðu fyrirkomulagi og var gert í frumútboði Íslandsbanka. Á grundvelli þessara upplýsinga er svo tekin ákvörðun um hvort að ráðist verði í útboð og hversu stór hlutur verði seldur.

Evrópska fjármálafyrirtækið STJ Advisors, ráðgjafi Bankasýslunnar í ferlinu, hefur bent á að í þeim útboðum sem hafa farið fram hjá skráðum evrópskum félögum á þessu ári með sambærilegu fyrirkomulagi hafi afslátturinn verið að meðaltali um 6,4 prósent. Eftir innrás Rússa í Úkraínu, sem hefur aukið óvissu og veltu á mörkuðum, hefur afslátturinn í slíkum útboðum verið enn meiri, eða um 8,4 prósent að jafnaði.

Með þessu síðasta útboði, frumútboðinu á liðnu ári og arðstekjum frá árinu 2016 hefur ríkissjóður endurheimt rúmlega 180 milljarða af stöðugleikaframlagi Glitnis, sem samanstóð meðal annars af 95 prósenta eignarhlut hlut félagsins í Íslandsbanka en fyrir átti ríkið 5 prósenta hlut. Eftirstandandi 42,5 prósenta eignarhlutur ríkissjóðs í Íslandsbanka er nú um 109 milljarða króna virði.

Bankasýslan hefur núna skuldbundið sig til að selja ekki frekari hlut í bankanum 90 daga eftir að viðskiptin gengu í gegn fyrir viku, nema með samþykki umsjónaraðila útboðsins eða í tengslum við hvers konar endurkaup Íslandsbanka á eigin hlutum á tímabilinu.


Tengdar fréttir

Íslandssjóðir keyptu fyrir um 1.400 milljónir í útboði Íslandsbanka

Sjóðastýringarfyrirtækið Íslandssjóðir er á meðal tíu stærstu hluthafa Íslandsbanka eftir að sala ríkissjóðs á hlutum í bankanum kláraðist í síðustu viku og nemur hlutur þess nú 1,55 prósentum. Íslandssjóðir, sem er dótturfélag Íslandsbanka, átti undir eins prósenta hlut þegar útboðið hófst en í lok árs stóð hann í 0,94 prósentum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×