Innlent

Trúnaðar­menn segja full­yrðingar Sól­veigar Önnu með öllu rangar

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Trúnaðarmenn Eflingar segja formann félagsins ekki hafa setið sáttafundi vegna hópuppsagnar. 
Trúnaðarmenn Eflingar segja formann félagsins ekki hafa setið sáttafundi vegna hópuppsagnar.  Vísir/Vilhelm

Trúnaðarmenn starfsmanna Eflingar segja að fullyrðingar Sólveigar Önnu Jónsdóttur formanns félagsins um að samkomulag hafi náðst um framkvæmd hópuppsagnar með öllu rangar. Þeir segja hana sömuleiðis ekki hafa setið samráðsfundi með trúnaðarmönnum áður en hópuppsagnir voru tilkynntar.

„Í ljósi þess að Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hefur rofið trúnað um bókun sem átti sér stað við lok samráðsferli sem trúnaðarmenn Eflingar áttu með lögmanni hennar getum við ekki séð að við séum bundin honum lengur.“

Svona hefst tilkynning trúnaðarmanna Eflingar sem barst fréttamiðlum laust fyrir klukkan þrjú. Þar er vísað til tilkynningar frá B-listanum, sem Sólveig Anna leiðir, sem barst fjölmiðlum í morgun. Í tilkynningunni var því haldið fram að samkomulag hafi náðst við trúnaðarmenn starfsfólks skrifstofu Eflingar um framkvæmd skipulagsbreytinga á vinnustaðnum. 

Stjórnarmenn hafi ekki reynt að koma í veg fyrir hópuppsögn

Í skipulagsbreytingunum felst hópuppsögn allra starfsmanna skrifstofu Eflingar svo hægt sé, að sögn stjórnenda, að innleiða ný ráðningarkjör, með gagnsæi og jafnrétti að leiðarljósi. Þá verði starfað undir nýju skipulagi með breyttum hæfniskröfum og verkaskiptingu. 

„Þann 11. og 12. apríl sl. hittu trúnaðarmenn Eflingar lögmann stjórnar Eflingar vegna fyrirhugaðrar hópuppsagnar. Tilgangur þessara funda var skv. lögum að „forðast hópuppsagnir eða fækka starfsmönnum sem fyrir þeim verða og draga úr afleiðingum með hjálp félagslegra aðgerða“. Við trúnaðarmenn fórum á þessa fundi með opnum hug og reyndum eftir fremsta megni að leita leiða til þess að komast hjá þessum hópuppsögnum eða milda þær,“ segir í tilkynningunni frá trúnaðarmönnunum, þeim Ölmu Pálmadóttur og Gabríel Benjamin.

 

Þau segjast telja að ekkert af yfirlýstum markmiðum stjórnar Eflingar krefjist hópuppsagnarinnar. Þá hafi þau gefið til kynna að þau tækju allar tillögur alvarlega og þau hafi reynt að vera samstarfsfús til lausna. 

„Ekkert varð úr því. Við getum ekki sagt að um samráð hafi verið að ræða í skilningi laga um hópuppsagnir, enginn vilji var til breytinga eða mildunar á hópuppsögn heldur einhliða ákvörðun sem er röng, óskynsamleg og með öllu ónauðsynleg. Gefnar voru upp ástæður sem fólust í breytingum á ráðningarkjörum og til að uppfylla skilyrði varðandi jafnlaunavottun. Þessar ástæður eru ekki byggðar á rökum og halda engu vatni,“ segir í tilkynningunni.

Segja Sólveigu ekki hafa setið sáttafundi

Þau segja að fullyrðingar Sólveigar Önnu um að samkomulag um framkvæmd uppsagnanna hafi náðst séu með öllu rangar. 

„Sem hún hefði vitað hefði hún setið fundina. Þegar ljóst var að ekki væri hægt að koma í veg fyrir eða milda þessar aðgerðir hófst samtal um hvernig mætti standa að þeim og úr því varð bókun. Í þeirri bókun ítrekuðum við andmæli okkar við hópuppsögnina en komumst að samkomulagi um fjögur atriði varðandi uppsagnirnar,“ segir í tilkynningunni. 

Þau segja að samkvæmt lögmanni stjórnar Eflingar sé bókunin og samskonar gögn ekki lengur trúnaðarmál og láta hana því fylgja með tilkynningunni. Bókunin fylgir hér að neðan í heild sinni. 

Þar kemur fram að þau fjögur atriði sem komist var að samkomulagi um hafi verið eftirfarandi:

  • Öllum starfsmönnum verður tryggður að lágmarki þriggja mánaða uppsagnarfrestur, þ.e. einnig þeim sem hafa ekki áunnið sér slíkan rétt samkvæmt kjarasamningi eða ráðningarsamningi.
  • Ef starfsmanni býðst starf hjá öðrum atvinnurekanda á uppsagnarfresti og hann óskar af þeim skum eftir að láta af störfum áður en uppsagnarfrestur er liðinn mun Efling samþykkja það með eins stuttum fyrirvara og unnt er og falla frá réttindum  og skyldum það sem eftir er uppsagnarfrests.
  • Starfsmönnum sem þess óska munu fá svigrúm á uppsagnarfresti til að sækjast eftir öðrum störfum, þ.e. fara í starfsviðtöl, undirbúa þau og fleira þess háttar á vinnutíma. Beiðnir um slíkt skulu þó berast fyrir fram til næsta yfirmanns, eigi síðar en degi áður en starfsmaður fyrirhugar að vera frá vinnu af þessum sökum. 
  • Starfsmenn sem óska þess verða leystir undan vinnuskyldu síðasta mánuð uppsagnarfrests, án skerðingar launa fyrir þann mánuð. 

„Eftir á að hyggja hefðum við trúnaðarmenn viljað að hverjum og einum starfsmanni yrði afhend uppsögnin af hendi formanns,“ segir í lok tilkynningarinnar. 

Tengd skjöl


Tengdar fréttir

ASÍ-UNG segir uppsagnirnar lagalega tæpar

Samtök ungs launafólks innan Alþýðusambands Íslands segja hópuppsögn innan Eflingar standa á mjög tæpum lagalegum grundvelli og stangast alfarið við þau siðferðislegu gildi sem þau vilji tileinka sér. 

Kom ekki til greina að hætta við uppsagnirnar

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar segir að ekki hafi komið til umræðu að hætta við uppsagnir alls starfsfólks á skrifstofu Eflingar, þegar unnið var að samkomulagi við trúnaðarmenn starfsfólks. Fráleitt sé að halda því fram að réttindi starfsfólksins verði ekki virt. 

Starfs­maður Eflingar og frænka Sól­veigar sakar stjórnina um hræsni

„Ef einhver vinnustaður annar hefði tilkynnt um hópuppsagnir til að svo endurráða starfsfólk á lægri kjörum þá værum við hjá Eflingu fyrst til að verja þau og þeirra réttindi. Ef einhver annar vinnustaður hefði ráðist á trúnaðarmenn sína og starfsmenn í fjölmiðlum þá værum við fyrst til að fordæma það og taka upp hanskann fyrir það starfsfólk.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×