Sport

Rooney skellti sér á bardagakvöldið hans Gunnars og fagnaði með sínu fólki frá Liverpool

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Wayne Rooney faðmar Molly „Meatball“ McCann og Paddy Pimplett.
Wayne Rooney faðmar Molly „Meatball“ McCann og Paddy Pimplett. ufc

Wayne Rooney, knattspyrnustjóri Derby County, fór á UFC bardagakvöld í O2 höllinni í London á laugardagskvöldið til að styðja við bakið á bardagafólki frá Liverpool.

Gunnar Nelson keppti á umræddu bardagakvöldi þar sem hann vann öruggan sigur á Takashi Sato frá Japan.

Bardagi Gunnars og Satos var á milli bardaga hjá Liverpool-fólkinu Molly „Meatball“ McCann og Paddy Pimplett. Kvöldið var gott fyrir þau McCann og Pimplett sem unnu bæði sína bardaga. McCann sigraði Luönu Carolina með rothöggi í 3. lotu á meðan það tók Pimplett aðeins tæpar fjórar mínútur að vinna Kazula Vargas.

Eftir bardagana hittu þau McCann og Pimplett Rooney, einn frægasta son Liverpool-borgar, og það fór vel á með þeim.

Fyrr um daginn hafði Rooney stýrt Derby gegn Coventry City í ensku B-deildinni. Leikurinn endaði með 1-1 jafntefli. Derby er í erfiðri stöðu í neðsta sæti deildarinnar, átta stigum frá öruggu sæti.

Rooney þykir hafa gert góða hluti með Derby sem hefur lent í miklu mótlæti undanfarna mánuði og byrjaði tímabilið með 21 stig í mínus. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.